Viðskipti innlent

ESPRIT bætist í hóp þeirra sem lækka vöruverð

Sæunn Gísladóttir skrifar
Verslun ESPRIT í Smáralind.
Verslun ESPRIT í Smáralind. Mynd/ELSA
Verslunin ESPRIT í Smáralind lækkaði fyrir helgi verð á öllum vörum um 20 prósent. Þetta er til að bregðast við áætlunum ríkisins um að fella niður 15 prósent tolla á fatnaði um áramót og vegna styrkingar krónunnar.

Þetta er ekki fyrsta verslunin sem bregst við tolllalækkunum, meðal annarra verslana sem hafa gert það eru Herragarðurinn og Húrra Reykjavík.

Sjá einnig: Fleiri verslanir afnema tolla strax



Elsa Þóra Jónsdóttir, eigandi verslunarinnar segist treysta því að staðið verði við tollalækkanirnar. Hún segir þau búin að fá mjög góð viðbrögð við lækkuninni. „Við erum búin að fá æðisleg viðbrögð.

Elsa Þóra Jónsdóttir
Viðskiptavinirnir eru búnir að vera ofboðslega ánægðir. Við höfum ekkert auglýst þetta ennþá nema sett þetta inn á Facebook okkar og sent þetta á póstlista vini okkar,“ segir Elsa.

„Fólki finnst við hafa stigið virkilega flott skref á því að hafa farið lengra í verðlækkunum. Fólki líður eins og það fái svo sjaldan að njóta þess að gengið styrkist,“ segir Elsa.

Aðspurð segir Elsa það ekki hafa mótað ákvörðunina að aðrar verslanir voru að lækka verð. Hún hafi verið búin að hugsa þetta áður.

„Maður var búinn að sjá það fyrir sér að maður myndi vilja gera þetta fyrir jól. Það eru svo margir viðskiptavinir í verslunum fyrir jólin, og það er gott að leyfa þeim að finna fyrir breytingunni,“ segir Elsa Þóra Jónsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×