Innlent

ESB vomir yfir VG í kosningabaráttunni

Fundað stíft Flokksráð VG samþykkti ályktun þar sem umræðu um samskipti Íslands og ESB er fagnað og hvatt til þess að hún haldi áfram.
Fundað stíft Flokksráð VG samþykkti ályktun þar sem umræðu um samskipti Íslands og ESB er fagnað og hvatt til þess að hún haldi áfram.
Flokksráð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (VG) fundaði um helgina. Fyrirfram höfðu verið skapaðar nokkrar væntingar um að nú yrði látið sverfa til stáls í málefnum er varða umsókn að ESB. Raunin varð önnur, samþykkt var ályktun um samskipti Íslands við þjóðir og þjóðabandalög þar sem umræðunni um samskipti Íslands og ESB er fagnað og hvatt til þess að hún haldi áfram.

Segja má að þetta sé að mörgu leyti endurtekið efni. Þeir eru ófáir fundirnir í stofnunum flokksins þar sem boðuð hefur verið stefnubreyting í Evrópumálum, enda fari aðildarumsókn gegn stefnu flokksins. Í aðdraganda funda hafa auglýsingar og undirskriftarlistar birst í fjölmiðlum, en á fundunum hefur stefna flokksins ekkert breyst.

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins, hélt ræðu við setningu fundarins. Hún vék þar að Evrópumálum og sagði flokksmenn skiptast í þrjá hópa; þá sem væru andstæðir aðild en litu á það mál sem eitt af mörgum sem vega mætti og meta, þá sem vildu að VG yrði einsmálshreyfing gegn ESB og loks fylgjendur aðildar. Síðasttaldi hópurinn væri lágvær og í minnihluta.

Ef litið er til þeirra samþykkta sem stofnanir flokksins hafa gert verður ekki annað séð en að fyrsti hópurinn sé í miklum meirihluta í flokknum. Stefna hans er að vera andvígur aðild að ESB, en hagsmunir af ríkisstjórnarsamstarfinu hafa á öllum fundum verið teknir fram yfir þá andstöðu.

Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, gagnrýndi Katrínu mjög fyrir þessa framsetningu. Hann hefur lengi talað fyrir því að flokkurinn breyti um kúrs í Evrópumálum. Hins vegar hefur það sjónarmið ekki notið meirihlutafylgis á fundum stofnana flokksins.

Sé horft til fundarins má ljóst vera að forystan vill beina athyglinni frá ESB og að árangri í efnahagsmálum. Mikið var lagt upp úr minna atvinnuleysi og auknum hagvexti og má þar sjá kosningaáherslur flokksins.

Heimildarmenn Fréttablaðsins eru sammála um að þetta verði einmitt taktík flokksins í kosningabaráttunni. Það sé honum ekki í hag að beina sjónum um of að ESB.


Tengdar fréttir

Samþykkt með þorra atkvæða gegn 5

VG samþykkti 10. maí 2009 ályktun þar sem mælt var með því að mynduð yrði ríkisstjórn með Samfylkingu "á grundvelli þeirrar samstarfsyfirlýsingar sem nú liggur fyrir“. Ályktunin var samþykkt með þorra atkvæða gegn fimm, einn sat hjá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×