Viðskipti erlent

ESB samþykkir að framlengja viðskiptaþvinganir gegn Rússum

Atli ísleifsson skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Vísir/AFP
Fulltrúar aðildarríkja Evrópusambandsins samþykktu í dag að framlengja viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna Úkraínudeilunnar fram til loka janúarmánaðar á næsta ári.

Þetta hefur Reuters eftir heimildarmönnum sínum en enn á formlega eftir að staðfesta ákvörðunina.

Viðskiptaþvinganir ESB og samstarfsríkja þeirra, þeirra á meðal Íslandi, gegn Rússum hafa nú verið í gildi í rúm tvö ár.

Evrópskir stjórnmálamenn, þýski utanríkisráðherrann Frank-Walter Steinmeier og ítalski forsætisráðherrann Matteo Renzi þeirra á meðal, hafa margir hvatt til þess að þvinganirnar gegn Rússlandi verði mildaðar.

Ákveðið var á grípa til þvingana í kjölfar innlimunar Rússlands á Krímskaga og stuðningi Rússa við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Á sama tíma hafa Rússar bannað allan innflutning á matvælum frá þeim ríkjum sem standa að þvingununum.

Pólland og Eystrasaltsríkin hafa talað fyrir áframhaldandi þvingunum og segja þær nauðsynlegar þar til friðaráætlun vegna Úkraínu sé að fullu komin til framkvæmda.

Leiðtogar aðildarríkja ESB  munu koma saman til fundar í Brussel eftir viku.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×