Erlent

ESB óttast að ríkisborgarar sínir í Bretlandi lendi í vandræðum eftir Brexit

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Útgönguferlið á að taka tvö ár en margir efast um að sá tímarammi haldi.
Útgönguferlið á að taka tvö ár en margir efast um að sá tímarammi haldi. Vísir/Getty
Evrópusambandið óttast að milljónir ríkisborgara þess í Bretlandi muni lenda í vandræðum þegar landið yfirgefur sambandið vegna þess hve veikburða breskt innflytjendakerfi er. Óttast er að lagaleg staða evrópskra ríkisborgara í landinu verði óljós.  Guardian greinir frá.

Breskar stofnanir halda ekki utan um mannfjöldatölur og hafa því ekki á skrá, alla þá sem búa í Bretlandi og telja evrópskir ráðamenn að þetta geti orðið til vandræða þegar ríkið yfirgefur sambandið, þar sem erfitt verður fyrir bresk stjórnvöld að ákvarða hvaða evrópskir ríkisborgarar voru í landinu með löglegum hætti og hverjir voru það ekki.

Þá óttast menn að álagið verði gífurlegt fyrir breskar stofnanir þegar kemur til þess að þær 3,3 milljónir Evrópubúa sem búa í Bretlandi munu þurfa að sækja um vegabréfsáritanir til þess að geta búið áfram í landinu eftir útgönguna. Mikil óvissa ríkir um það hvernig tekið verður á þessum málum og segja bresk yfirvöld að verið sé að vinna að lausnum á málinu.

Ríkisstjórn Tony Blair hafði á stefnuskrá sinni árið 2007 að innleiða bresk auðkenniskort fyrir breska ríkisborgara sem og mannfjöldaskrá en sú stefna varð að engu vegna þess að breskur almenningur óttaðist mjög öryggi þeirra upplýsinga sem yfirvöld ætluðu sér að safna um almenning.

Fjöldi ríkisborgara ESB sem sótt hafa um landvistarleyfi í Bretlandi hefur aukist um 50 prósent frá því að kosið var um Brexit, í júní síðastliðnum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×