Erlent

ESB herðir viðskiptaþvinganir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
John Kerry Utanríkisráðherra Bandaríkjanna telur að rússnesk stjórnvöld hafi látið uppreisnarmenn hafa vopn. 
nordicphotos/afp
John Kerry Utanríkisráðherra Bandaríkjanna telur að rússnesk stjórnvöld hafi látið uppreisnarmenn hafa vopn. nordicphotos/afp
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun herða viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna deilunnar við Úkraínumenn. Viðskiptaþvinganirnar munu ná til verslunar með olíu og tæknivara. Þá er líklegt að takmarkanir verði settar á aðgang rússneskra ríkisbanka að erlendu fjármagni.

Með þessu vill Evrópusambandið bregðast við stuðningi rússneskra stjórnvalda við uppreisnarmenn í austurhluta Úkraínu. Stjórnvöld í Rússlandi neita ásökunum Evrópusambandsins og Bandaríkjamanna um að Rússar útvegi uppreisnarmönnunum þungavopn.

BBC, fréttastofa breska ríkisútvarpsins, sagði í gær að enn ætti eftir að greina frá smáatriðum varðandi viðskiptaþvinganirnar. Búist er við því að yfirlýsing um þær verði birt í dag. Þá muni Evrópusambandið greina frá því að eigur fleiri háttsettra rússneskra embættismanna verði frystar og þeim meinað að ferðast til Evrópu.

Aukinn þrýstingur hefur verið settur á Evrópusambandið um harðari aðgerðir gegn Rússum eftir að malasísk farþegaþota var skotin niður í lofthelgi Úkraínu fyrr í mánuðinum. Tæplega 300 manns fórust með vélinni og voru flestir þeirra hollenskir ríkisborgarar. Stjórnvöld á Vesturlöndum telja að uppreisnarmenn hafi skotið vélina niður með rússnesku loftskeyti.- 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×