Innlent

ESA vísar tveimur málum gegn Íslandi til EFTA-dómstólsins

Atli Ísleifsson skrifar
Úr þingsal.
Úr þingsal. Vísir/Ernir
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur ákveðið að vísa tveimur málum gegn Íslandi til EFTA dómstólsins þar sem Ísland hefur ekki innleitt EES löggjöf innan tilskilinna tímamarka.

Um að ræða reglugerð sem varðar öryggi og markaðssetningu á forefnum sprengiefna og tilskipun um vélar sem notaðar eru til að dreifa skordýraeitri.

Í tilkynningu frá ESA segir að málaferlin varði EES reglur, sem innleiddar hafi verið í EES samninginn, en hafi ekki tekið gildi að landsrétti innan settra tímamarka. Vísun máls til dómstólsins er lokaskrefið í formlegu samningsbrotamáli ESA á hendur EFTA-ríki, en áður hefur Ísland verið upplýst um afstöðu stofnunarinnar og veittur kostur á að koma röksemdum sínum á framfæri sem og að ljúka málinu með því að innleiða viðeigandi löggjöf innan gildandi tímamarka.

„Reglugerð 98/2013 varðar reglur um  markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna sem hægt er að misnota til ólöglegrar framleiðslu sprengiefna. Tilgangur reglugerðarinnar er að draga úr aðgengi einstaklinga að hættulegum forefnum sprengiefna. Reglugerðin felur meðal annars í sér að seljendum er skylt að tilkynna grunsamleg viðskipti með tiltekin forefni sem og önnur eftirlitsskyld efni. Reglugerðinni er því ætlað að bregðast við hugsanlegri hryðjuverkaógn og auka öryggi varðandi aðgengi að forefnum sprengiefna, sprengjugerðarefnum og tækni sem hryðjuverkamenn gætu misnotað. EFTA-ríkjunum bar að innleiða reglugerðina fyrir 1. ágúst 2015.

Tilskipun 2009/127 er endurskoðun eldri tilskipunar um vélar sem notaðar eru til að dreifa skordýraeitri. Til dæmis sjálfknúnar vélar, vélar sem settar eru í ökutæki og þær sem settar eru í flugvélar til dreifingar. Gildir þetta jafnt fyrir atvinnutæki og tæki til einkanota. EFTA ríkjunum bar að innleiða tilskipunina fyrir 1. júní 2015,“ segit í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Ísland stendur sig ennþá verst

Ísland stendur sig enn verst EFTA-ríkjanna þegar kemur að innleiðingu tilskipana í gegnum EES-samninginn. Frammistaða Íslands er sú versta á Evrópska efnahagssvæðinu öllu og ljóst að þörf er á frekari aðgerðum að mati eftirlitsstofnunar EFTA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×