Innlent

ESA stefnir Íslandi vegna dráttar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Drætti íslenska ríkisins á innleiðingu Evróputilskipunar sem útlistar lágmarksöryggisstaðla fyrir þrýstibúnað (svo sem slökkvitæki, hraðsuðupotta og suðukatla) hefur verið vísað til EFTA-dómstólsins. Í tilkynningu ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, í gær kemur fram að Ísland hafi ekki innleitt þann hluta tilskipunarinnar sem tók gildi 1. maí 2015.

„Tilskipun 2014/68/ESB tryggir frjálst flæði á vörum sem skilgreindar eru sem þrýstibúnaður og eykur um leið öryggi þeirra,“ segir í tilkynningu ESA.

Bent er á að vísun máls til EFTA-dómstólsins sé lokaskrefið í formlegu samningsbrotamáli ESA á hendur EFTA-ríki. „Áður hefur Ísland verið upplýst um afstöðu stofnunarinnar og veittur kostur á að koma röksemdum sínum á framfæri sem og að ljúka málinu með því að innleiða viðeigandi löggjöf innan gildandi tímamarka.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×