Viðskipti innlent

ESA sammála ríkinu um losun fjármagnshafta

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Valli
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) segir lög um aflandsskrónur vera í samræmi við EES-samninginn. Stofnunin hefur nú lokið athugunum á tveimur málum vegna kvartana varðandi löggjöfina um eign á aflandskrónum.

Auk þess að snúa að lögum um aflandskrónur snúa kvartanirnar að að uppboði Seðlabankans á aflandskrónueignum þar sem eigendum var boðið að breyta krónum í gjaldeyri með verulegum afföllum. Annars yrðu eignirnar læstar á reikningum með litla sem enga vexti.

Kvartanirnar byggðu á því að rök íslenskra stjórnvalda og tilvísun í verndarsjónarmið eigi sér ekki stoð því núverandi efnahagsástand á Íslandi sé gott.

ESA segir þó að þótt efnahagur ríkisins hafi styrkst á undanförnum árum felur það ekki í sér að greiðslujöfnunarvandi ríkisins hafi verið leystur.

„Því sé enn ekki tryggt að ekki verði  óstöðugleiki í kjölfar afnáms hafta. Standi EES-ríki frammi fyrir greiðslujöfnunarvanda eða sé alvarleg hætta á að örðugleikar skapist, hafa stjórnvöld og löggjafinn talsvert svigrúm til að grípa til verndarráðstafana,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.

EES-samningurinn heimilar aðildarríkjum að grípa til verndarráðstafana ef þau glíma við greiðslujöfnunarvanda. Í slíkum tilvikum getur efnahags- og peningastefna ríkja miðað af því að yfirstíga efnahagsþrengingar.

„ESA telur meðferð íslenskra stjórnvalda á aflandskrónum til ráðstafana sem samræmast EES-samningnum. Markmið laganna er að skapa grundvöll fyrir frjálst flæði íslensku krónunnar, sem á endanum mun gera Íslandi kleift að taka á ný fullan þátt í frjálsum fjármagnsflutningum,“ segir Frank J. Büchel, sem situr í stjórn ESA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×