Viðskipti innlent

ESA rannsakar lánveitingar Seðlabankans til Íslandsbanka og Arion banka

ingvar haraldsson skrifar
ESA er með lánveitingar Seðlabanka Íslands til Arion banka og Íslandsbanka í september og nóvember 2009 til rannsóknar.
ESA er með lánveitingar Seðlabanka Íslands til Arion banka og Íslandsbanka í september og nóvember 2009 til rannsóknar. vísir/gva
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur hafið formlega rannsókn á hugsanlegri ríkisaðstoð í tengslum við lánssamninga milli Seðlabanka Íslands Seðlabanka Íslands, Íslandsbanka og Arion banka.

Málið varðar tvo aðskilda skuldbreytingarsamninga á milli Seðlabanka Íslands og Íslandsbanka og Arion banka sem undirritaðir voru í september og nóvember 2009. Með samningunum var skammtíma veðlánum og verðbréfalánum frá Seðlabanka Íslands skuldbreytt í lán til langs tíma samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá ESA.

Lánin höfðu veruleg áhrif á lausafjárstöðu bankanna

ESA segir umrædd skammtíma veðlán hafa verið veitt með veði í ýmsum skuldabréfum, þar á meðal veðum í húsnæðislánasafni bankanna tveggja. Við endurfjármögnun nýju bankanna (Íslandsbanka og Arion banka), hafi innlendar eignir og skuldbindingar forvera þeirra, Glitnis and Kaupþings, verið færðar til nýju bankanna.

Þar á meðal hafi verið skuldbindingar gagnvart Seðlabanka Íslands. ESA segir að þar sem skuldir bankanna við Seðlabankann hafi verið í formi skammtíma veðlána hefði tafarlaus endurgreiðsla haft veruleg áhrif á lausafjárstöðu nýju bankanna tveggja.

Seðlabankinn segist hafa viljað hámarka endurheimtur

Seðlabanki Íslands segir að með skuldbreytingunni hafi Seðlabankinn verið að verja hagsmuni sína og hámarka endurheimtur af lánunum. Því hafi umræddar ráðstafanir hafi því verið í samræmi við það sem almennur lánveitandi hefði gert í sömu stöðu.

ESA telur hins vegar tilefni til þess að rannsaka hvort þeir lánaskilmálar sem Seðlabanki Íslands samþykkti hafi verið í samræmi við markaðskjör. Sé svo ekki kunna þeir að fela í sér ólögmæta ríkisaðstoð í skilningi EES-samningsins.

ESA kallar nú eftir athugasemdum og upplýsingum frá íslenskum yfirvöldum. Jafnframt kallar stofnunin eftir athugasemdum frá þeim aðilum sem telja sig eiga hagsmuna að gæta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×