Innlent

ESA hefur formlega rannsókn á samningum Reykjavíkurborgar og Íslenska gámafélagsins

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Höfuðstöðvar Íslenska gámafélagsins eru í Gufunesi.
Höfuðstöðvar Íslenska gámafélagsins eru í Gufunesi.
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur hafið formlega rannsókn á hugsanlegri ríkisaðstoð Reykjavíkurborgar vegna leigu á landi og fasteignum í Gufunessvæðinu. Ástæðan er sú að eftir forathugun telur stofnunin að líkur séu á því að samningar borgarinnar og Íslenska gámafélagsins séu ekki í samræmi við markaðskjör. Þetta kemur fram á vefsíðu eftirlitsstofnunarinnar en ákvörðunin var tekin í dag.

Á síðunni er farið yfir forsögu málsins.

„Þar til árið 2001 var áburðarverksmiðja starfrækt á Gufunessvæðinu. Árið 2002 keypti Reykjavíkurborg fasteignir Áburðarverksmiðjunnar og tók borgin yfir þágildandi leigusamninga. Árið 2003 voru tilteknir hlutar svæðisins auglýstir til útleigu og gekk Reykjavíkurborg til samninga við nokkra aðila í kjölfarið. Samkvæmt upplýsingum Reykjavíkurborgar voru fasteignir á svæðinu í slæmu ástandi og illa gekk að innheimta leigu.

Í ljósi þess var ákveðið að framlengja ekki leigusamninga en ganga þess í stað til samninga við einn aðila. Árið 2005 var gerður samningur við stærsta leigutakann, Íslenska Gámafélagið, um leigu, hreinsun og umsjón í Gufunesi. Frá þeim tíma hefur samningurinn verið framlengdur þrisvar og gildir hann nú til 31. desember 2018.“

Höfuðstöðvar Íslenska gámafélagsins eru í Gufunesi en félagið er með starfstöðvar víðsvegar um landið.

Umræddir samningar teljast fela í sér ríkisaðstoð ef mat ESA leiðir í ljós að einkaaðili hefði á markaðsforsendum ekki getað gert samning með sömu skilmálum og Reykjavíkurborg gerði.

Stofnunin kallar nú eftir athugasemdum og upplýsingum frá íslenskum yfirvöldum og frá þeim aðilum sem telja sig eiga hagsmuna að gæta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×