Viðskipti innlent

ESA: Lánssamningar Seðlabankans við Íslandsbanka og Arion fólu ekki í sér ríkisaðstoð

Atli Ísleifsson skrifar
Málið varðar tvo lánssaminga milli Seðlabanka Íslands og Íslandsbanka (áður Glitnis) og Seðlabankans og Arion banka (áður Kaupþings).
Málið varðar tvo lánssaminga milli Seðlabanka Íslands og Íslandsbanka (áður Glitnis) og Seðlabankans og Arion banka (áður Kaupþings). Vísir/Andri Marinó
Lánssamningar sem Seðlabanki Íslands gerði við Íslandsbanka og Arion banka í kjölfar bankahrunsins voru gerðir á markaðskjörum og fólu því ekki í sér ríkisaðstoð.

Þetta er niðurstaða ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, sem tók málið til skoðunar eftir að kvörtun hafði borist.

Í tilkynningu frá ESA segir að formleg rannsókn hafi hafist í maí 2015. „Meðan á rannsókn málsins stóð aflaði ESA gagna varðandi lánskjör í sambærilegum lánssamningum frá sama tíma, meðal annars frá aðilum málsins. Gögnin sýndu að lánaskilmálarnir sem Seðlabanki Íslands samþykkti voru í samræmi við markaðskjör á þeim tíma sem samningarnir voru undirritaðir. Með samningunum var Seðlabankinn því að verja hagsmuni sína og hámarka endurheimtur af lánunum.

ESA komst að þeirri niðurstöðu að umræddar ráðstafanir væru í samræmi við það sem almennur lánveitandi hefði gert í sömu stöðu. Þar af leiðandi fólu samningarnir ekki í sér ríkisaðstoð í skilningi EES-samningssins.

Forsaga málsins

Málið varðar tvo lánssaminga milli Seðlabanka Íslands og Íslandsbanka (áður Glitnis) og Seðlabankans og Arion banka (áður Kaupþings). Samningarnir voru undirritaðir í september 2009 og janúar 2010. Með samningunum var skammtíma veðlánum og verðbréfalánum frá Seðlabanka Íslands skuldbreytt í lán til langs tíma.

Umrædd skammtíma veðlán voru á sínum tíma veitt með veði í ýmsum skuldabréfum, þar á meðal veðum í húsnæðislánasafni bankanna tveggja. Við endurfjármögnun nýju bankanna (Íslandsbanka og Arion banka), voru innlendar eignir og skuldbindingar forvera þeirra, Glitnis and Kaupþings, færðar til nýju bankanna. Þar á meðal voru skuldbindingar gagnvart Seðlabanka Íslands. Skuldir bankanna við Seðlabankann voru í formi skammtíma veðlána.  Krafa um tafarlausa endurgreiðslu þeirra hefði haft veruleg áhrif á lausafjárstöðu nýju bankanna tveggja og dregið úr líkum Seðlabankans á að fá lánin endurgreidd að fullu,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×