Skoðun

Eru nemendur Verslunarskólans brautryðjendur í jafnréttismálum?

Sigrún Dís Hauksdóttir skrifar
Greinar og umræður um Rjómann sem er grínþáttur gefinn út af nefnd í Verslunarskólanum hafa verið í fjölmiðlum upp á síðkastið. Mig langar að segja frá öllu því góða starfi sem er í gangi í Verslunarskólanum því einn þáttur sem nemendafélagið gefur út endurspeglar ekki starfsemi skólans, ekki frekar en að einn þáttur úr Spaugstofunni endurspegli allt þjóðfélagið.

Undirritaður formaður nemendafélags Verslunarskóla Íslands er sammála grunninum í greinargerð einstaklinga í MH og MR um þáttinn, en á sama tíma og þau gagnrýna staðalímyndir þá alhæfa þau um nemendur Verslunarskólans í þeirra starfi. Þau segja að í Versló ríki feðraveldið og að uppeldi okkar sé óeðlilegt og ekki félagslegt. Einnig halda þau því fram að Verslingar séu andfemíniskir. Það finnst mér vera alrangt.

Mér finnst að gagnrýnin, sem drengirnir í Rjómanum hafa fengið of hörð. Þeir áttu ekki skilið persónuárásir og mér finnst of langt gengið að gefa í skyn að það ætti að reka þá úr skólanum fyrir gerð þáttarins. Þó ber að hafa í hug að gagnrýnin er skrifuð af einstaklingum sem eru að stíga sín fyrstu skref í jafnréttisbaráttu. Það er ekki þar með sagt að þeir eigi að hætta að gagnrýna heldur halda áfram, læra og bæta sig.

Það sama má segja um strákana í Rjómanum sem voru að gera sinn fyrsta grínþátt. Hann var ekki fullkominn en það er í lagi enda eru þeir að stíga sín fyrstu skref í grínþáttagerð. Þeir eiga ekki að hætta að gera grínþætti heldur halda því áfram, læra og bæta sig. Grínið er línudans þar sem auðvelt er að fara yfir línuna.

Jafnrétti í Versló

Innan skólans hefur verið starfandi femínistafélag í nokkur ár. Fyrir þetta skólaár var það innleitt í lög nemendafélagsins að stjórn þess bæri skylda til að hafa starfandi femínistafélag. Félagið stendur fyrir mörg hundruð manna umræðuhóp á netinu um femínisma og stendur það ásamt stjórn fyrir öflugri fræðslu um jafnrétti.

Í byrjun þessa skólaárs samþykktu nemendur skólans jafnréttislög með hreinum meirihluta og voru þau hugmynd nemenda. Þar er m.a. tekið fram að nemendafélagið skuli vinna gegn neikvæðum staðalímyndum ákveðinna hópa og að áreitni í garð þeirra séu ekki liðin innan starfssemi nemendafélagsins.

Mikil og skemmtileg umræða skapaðist í kringum setningu jafnréttislaganna. Það er gaman að segja frá því að þetta er ekki bara þröngur hópur í skólanum sem lætur sig málið varða. Dæmi um það er viðbrögð okkar þegar fyrirlesari sem heimsótti skólann gekk of langt. Þann daginn hengu auglýsingar á veggjum skólans um kynfræðing sem var bókuð til að halda fyrirlestur í hádegishléi næsta dag. Fyrirlesarinn sagði í míkrafóninn: ,, Kvenmaður að tala um kynlíf? Allir vita að kynlíf hefur alltaf verið grein okkar karlmanna.” Nemendum skólans var ofboðið og púuðu á manninn. Að lokum er nýbúið að samþykkja þau lög að þættir sem nemendafélagið gefur út skuli standast Bechdel prófið að undanskilinni reglunni um nafngreiningu. Það munið þið sjá í næstu myndbandsþáttum á vegum nemendafélags Versló.

Bechdel

Þættir prófsins eru þessir, ath að N.F.V.Í. tók út liðinn um nafngreiningu.

1. Kvikmyndin verður að innihalda fleiri en tvær nafngreindar konur, helst í aðalhlutverkum.

2. Þessar tvær konur þurfa að eiga samtal og samskipti í þættinum/kvikmyndinni.

3. Þessi samskipti þurfa að snúast um eitthvað annað en karlmenn.

Þá vaknar spurningin, hvers vegna þarf Bechdel prófið að vera í lögum nemendafélags? Er þetta ekki frekar próf sem á að vera vitundarvakning og á ekki frekar að taka kvikmyndir og þætti í prófið eftir á?

Það sem Bechdel prófið snýst um á að vera sjálfsagt mál, en því miður er staðreyndin sú að samfélagið hefur skapað vandamál. Allt samfélagið, þetta vandamál nær langt út fyrir Verslunarskólann. Ég læt töflu úr úttekt framhaldsskóla á Íslandi fylgja, sem kynjafræðingarnir Rakel Magnúsdóttir og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir unnu að. Tvö af þremur mynböndum sem standast prófið eru fræðslumyndbönd og stenst þátturinn í MH prófið af þeim forsendum að þar birtast stelpur í klappleik, þær skiptast ekki á orðum.  





Samkynhneigð


Í einu atriði í Rjómanum fara þeir á Gay Pride. Hugmynd strákanna átti að vera að vekja athygli á hátíðinni. Hvort þeim hefði betur mátt takast til að búa til aðhlátursefni á hátíðinni, getur hver dæmt um fyrir sig, til dæmis finnst mér að þeir hefðu getað útfært það á annnan hátt, en grunnhugmynd þeirra, að vekja athygli á hátíðinni var góð. Einnig er sena þar sem rjómastrákarnir gera lítið úr þeim sem líta niður á samkynhneigða, rauði þráður senunnar átti að vera að gera lítið úr úreltum hugmyndum feðra um að það sé slæmt að synir þeirra séu samkynhneigðir. Það var grínið, að svona talar maður ekki. Sú hugmynd strákana var góð en því miður var útfærslan þannig að hægt var að túlka atriðið sem fordóma, og eru þeir miður sín yfir því. Vonandi tekst þeim að ná betri tök á jafnréttishugsun og útfæra hugmyndir sínar þannig að það sé skýrara hvað verið er að gera grín að. Því hefðu þeir sett upp sketsinn þannig að skýrt væri að úrelt viðhorf þeirra til samkynhnegðar væri aðhlátursefnið hefði atriðið verið gott.

Mér finnst það lýsa andanum í skólanum vel að tveir strákar í mínum árgangi komu út úr skápnum í skólablaði skólans sem allir Verslingar fá gefins. Þeir kusu það, af öllum öðrum aðferðum að opna sig í skólablaði Verslunarskólans.

Listafélag skólans stendur fyrir leiksýningu þar sem aðalhlutverkin eru elskhugar af sama kyni og árið 2013 var sami póll tekinn í Nemendamótsýningunni sem er stærsta og glæsilegasta verkefni sem nemendafélagið gefur frá sér ár hvert. Endilega njótið sýningarinnar hér:



Við í nemendafélaginu höfum rætt í vetur hvernig við getum hlúð betur að samkynhneigðum nemendum, bæði þeim sem eru komnir út úr skápnum og þeir sem eru enn inni í skápnum. Ég hef rætt við samkynhneigða nemendur skólans um að stofna félag samkynhneigðra verslunarskólanema. Þeir tóku virkilega vel í hugmyndina og byrjuðum við strax á hugmyndavinnu fyrir félagið. Næsta skref er að stofna félagið og láta það leiða þessa vinnu.

Hverju má gera grín að?

Viss atriði þáttarins gengu of langt, því getur enginn neitað. Þegar viðfangsefni grínsins eru viðkvæm getur fallið verið hátt, grínið er línudans og auðvelt er að fara yfir línuna. Oft voru hugmyndir þeirra að aðhlátursefni áhorfendans allt aðrar en margir áhorfendur túlkuðu þær. Við tökum harða afstöðu gegn fordómum og erum við að vinna hörðum höndum að finna út úr því hvað hefði mátt fara öðruvísi svo grínið hefði skilað sér á þann hátt sem þeir hefðu viljað. Bæði með því að sleppa algjörlega að vinna með ákveðnar hugmyndir eða vinna með þær á annan hátt.

Annars finnst mér athyglisvert við greinargerð gagrýnenda úr öðrum skólum að þeir alhæfa um það sem bannað er að hlæja af. Það er ekki hægt að koma með fullyrðingu um hvað er fyndið og hvað ekki, við vitum öll að það það er skoðun hvers og eins. Allir hópar mega taka þátt í gríni, ef það er gert á réttlátan hátt.

Rjóminn er skemmtiþáttur, grínþáttur, líkt og Spaugstofan, Stelpurnar, Fóstbræður og Svínasúpan, sem mér finnst mun grófari þættir en Rjóminn. Sena virkar eins og brandari. Í bröndurum eru settar saman óeðlilegar aðstæður, þær eru ýktar og undið upp á þær. Í þeim kemur húmorinn fram. Húmor virkar þannig að gert er grín að einhverju eða einhverjum. Eins og gagnrýnendur þáttanna tala finnst mér þau ekki vilja að gert sé grín að konum og MR-ingarnir tveir halda því fram að kona megi hvorki vera undirgefin né valdamikil. Þau nefna alls konar hópa sem gætu misboðið einhverjum og banna þeim að taka þátt í brandara yfir höfuð. Hvað situr þá eftir? Er eina fólkið sem má koma fyrir í brandara, á einhvern hátt, heilbrigðir, gagnkynhnegðir, hvítir karlmenn? Ef Rjóminn myndi einungis vinna með það þröngsýna mengi fólks væri þátturinn einhæfur. Þá væri gagnrýni þáttanna sú sama og þeir sem stóðu að áramótaskaupinu urðu fyrir. Skaupið var gagnrýnt fyrir að gera ekki nógu mikið grín að konum. Gagnrýnendur grínþátta á Íslandi eru búnir að mynda algjöran vítahring.

Mig langar að minna á hvað Næturvaktin, Dagvaktin, Fangavaktin og Georg Bjarnfreðarson slógu rækilega í gegn á Íslandi. Þar var unnið að gríni með valdamiklum konum, heimskum konum, femínistum, samkynhneigðum, dópistum, geðveikum, eldriborgurum, heimskum körlum, valdamiklum körlum, föngum, undirgefnum körlum ásamt fleiri hópum. Ég tel að þættirnir hefðu aldrei slegið í gegn ef einu persónur þáttanna væru þessi eini hópur sem gagnrýnendur Rjómans virðast leyfa að koma nálægt bröndurum. Þó ber að hafa í hug að mörgum fannst vaktirnar ganga of langt. Ég vona að þið áttið ykkur á hvert ég er að fara. Allir hópar mega taka þátt í gríni, ef það er gert á réttlátan hátt.

Rjóminn á réttri braut

Strákarnir fengu þau skilaboð í upphafi árs að fá stelpur til að vera meira áberandi í þáttunum. Það hefur verið erfitt að fá stelpur til að bjóða sig fram í nefndirnar, að öllum líkindum vegna hlutverkanna sem þær hafa verið að fá undanfarin ár. Þeir fóru eftir þeim fyrirmælum og gengu meira að segja skrefinu lengra. Þeir fengu vinkonur sínar til að semja atriði með þeim og fyrir þá ásamt því að þær komu að hugmyndavinnu og annars konar reddingum. Hvar stúlkurnar eru staddar í kynjajafnréttisvitund er annað mál.

Fyrir þáttinn sendi ég fulltrúa úr hópnum á jafnréttisnámskeið. Ég er búin að bóka fyrirlestur frá kynjafræðingi sem kemur á næstu vikum og eru allir þeir sem gefa frá sér útgefið efni skyldugir til að mæta á fyrirlesturinn. Skólinn hefur einmitt verið að standa fyrir því undanfarin ár, að skylda félagsmenn nemendafélagsins á kynjafræðifyrirlestra. Strákarnir eru búnir að hitta annan kynjafræðing á eigin forsendum sem ætlar að vera með þeim í ferlinu og benda þeim á hvernig hún myndi nálgast hugmyndir þeirra. Einnig munu þeir funda með vönum manni úr grínheiminum sem mun fara yfir þetta með þeim. Gera þeim grein fyrir því að það er hægt að gera margar tegundir af gríni m.a. grín sem stuðar fólk. Línan hjá gagnrýnendum þáttanna, um hvað má gera grín að og hvað er fyndið liggur á einum stað. Mín lína liggur ekki á sama stað og þeirra og lína Rjómans liggur ekki á sama stað og mín. Það sem við viljum fá út úr þessu er að Rjóminn sé meðvitaðri um grínið sem þeir gefa frá sér og geta rökstutt og réttlætt hvar þeir draga sína línu.

Ábyrgð fjölmiðla

Kröfurnar eru orðnar miklar á menntskælinga. Við í framhaldsskólum erum 16-19 ára. Við gerum mistök, annað væri óeðlilegt. Núna er efnið sem við gefum út aðgengilegt á netinu. Það hefur kosti og galla.

Mér blöskrar að horfa upp á niðurlæginguna og árásirnar sem bæði strákarnir og skólinn er búinn að verða fyrir, aðallega fyrir alhæfingar sem mér finnst vera rangar. Þeir voru að vanda sig og eru miður sín. Mikil vinna fór í gerð þáttarins og tók hún um hálft ár. Drengirnir eru búnir að verða fyrir persónulegum árásum í einkaskilaboðum frá fullorðnu fólki.

Einnig sárnar mér að horfa upp á vinnubrögð fjölmiðla í garð Verslunarskólans. Tvö mál voru tekin fyrir í fjölmiðlum sama daginn og vinnubrögðin og niðurlægingin í garð krakkanna er óásættanleg. Sextán strákar skólans stóðu fyrir atviki sem varð til þess að þeim var vikið úr skólanum í óákveðinn tíma. Vísir var búinn að birta andlitsmyndir af öllum strákunum sem voru reknir áður en þeir fengu tækifæri til segja foreldrum sínum frá atvikinu. Vísir tók myndirnar út eftir að þeim var bent á hversu óábyrgt og tillitslaust þetta var. Ég hef ekki séð neina afsökunarbeiðni frá fjölmiðlinum til hlutaðeiganda aðila. DV tók einnig upp á því að birta andlitsmynd af nemanda skólans með fyrirsögn þar sem haldið er fram að skólinn allur búi yfir mannfyrirlitningu og að strákarnir í Rjómanum ættu ekki skilið að fá að halda áfram í skólanum, svona fréttamennska finnst mér fyrir neðan allar hellur. Eitt er að reyna að selja fjölmiðla en að gera það á kostnað orðspors óharðnaðra unglinga finnst mér algjör lágkúra.

Gerum okkur grein fyrir vandanum

Nemendur Verslunarskólans gera sér fulla grein fyrir vandamálinu sem ríkir yfir samfélaginu. Við reynum að aðstoða þá einstaklinga skólans, sem eru ekki nægilega framarlega í jafnréttishugsun að bæta sig, á jákvæðum nótum með aðferðum sem ég hef tekið fram. Ekki með niðurrifsstarfsemi. Þannig viljum við í nemendafélagi Versló ekki vinna. Ég vil ekki að nemendur skólans upphefji okkur með því að niðurlægja vinnu annarra skóla opinberlega og það viljum við heldur ekki gera sem einstaklingar í okkar starfsemi.

Að breyta hugsunarhætti sem viðgengst hefur innan nemendafélaga tekur sinn tíma. Flestar hefðir, allra nemendafélaga landsins, voru skapaðar af karlmönnum. Ég er aðeins fimmti kvenforseti nemendafélagsins í 109 ára sögu þess. Við erum að nota nánast allar tiltækar aðferðir til að efla jafnréttishugsun, það gerist ekki á einu ári þó ég myndi gjarnan vilja það. Nú eru kvenmenn farnir að segja til sín og komnar í áhrifastöður innan margra nemendafélaga og breytingarnar láta ekki á sér standa.

Nemendur skólans kusu mig, konu til að sinna formannsembætti nemendafélagsins og meðstjórnendur mínir eru í meiri hluta konur sem sýnir að nemendur skólans hafa trú á konum. Mér finnst móðgandi að utanaðkomandi fólk myndar sér staðalímynd af skólanum að hér ríki karlaveldi því þannig er það ekki í ár. Ég vona innilega að ég hafi gert vel grein fyrir því hvað á sér raunverulega stað í starfi nemendafélagsins sem tengist jafnrétti og mannréttindum. Í ljósi þess að sumir virðast halda að hér fengum við ófélagslegt, andfemíniskt og lélegt uppeldi hvet ég talsmenn annarra nemendafélaga til að upplýsa okkur um hvaða aðgerðir þeirra nemendafélög eru að nota sem viðgengst ekki hjá okkur svo við getum öll hjálpast að, að búa til betra samfélag.


Tengdar fréttir

Kæri Rjómi

Hugsuðuð þið um afleiðingarnar? Finnst ykkur þetta í lagi? Að gefa út þátt sem fær jafn mikla athygli og þessi er ábyrgðarhlutverk.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×