Skoðun

Eru dómarar líka menn?

Hjördís Birna Hjartardóttir skrifar
Mikið hefur verið skrifað um skipan Hæstaréttar undanfarna daga og vikur í framhaldi af því að fimm (karl)manna dómnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Karl Axelsson væri hæfastur til að gegna embættinu. Innanríkisráðherra ákvað að fylgja tilmælum nefndarinnar, líkt og viðbúið var, en hefur að sama skapi gefið í skyn að hún hyggist gera breytingar og horfa í þeim efnum til framtíðar.

Það er talsvert tabú meðal lögmanna að tjá sig um dómara. Lögmenn hafa að sjálfsögðu sterkar skoðanir á dómurum bak við luktar dyr skrifstofunnar, en þeir ræða þær skoðanir treglega opinskátt. Af hverju? Af því að lögmenn flytja mál sín frammi fyrir þessum sömu dómurum og eiga velgengni sína – eða réttara sagt velgengni skjólstæðinga sinna – undir dómum þeirra. Þessi tregða við gagnrýni á sérstaklega við um Hæstarétt. Það er líka vel þekkt meðal lögmanna að þeir vilja frekar að málin sín lendi hjá þessum dómara heldur en hinum. Af hverju? Af því að lögmenn kunna betur við suma dómara en aðra og treysta sumum dómurum betur en öðrum til að komast að „réttri“ niðurstöðu.

Mótsögn

Í þessu er ákveðin mótsögn. Mjög snemma í lögfræðinámi er laganemum kennt að dómarar skuli vera sjálfstæðir og óvilhallir; að þegar dómari klæði sig í skikkjuna afklæðist hann í raun persónu sinni og beiti einungis lögunum. Þetta er einmitt það sem Jón Steinar byggir málflutning sinn á þessa dagana, þ.e. að dómarar séu ekkert annað en þjónar réttarins. Jón hefur reyndar líka ásakað Hæstarétt um mikla persónulega andúð í sinn garð, reyndar svo mikla að hann hafi ákveðið að hætta að flytja mál fyrir réttinum vorið 2004, áður en hann var skipaður dómari. Jón á einnig fordæmalausan fjölda sératkvæða sem dómari við réttinn. Samt var hann að beita sömu lögum og allir hinir. Hvað veldur? Skiptir kannski einhverju máli hver persónan er sem dæmir?

Hugmyndin um dómarann sem afklæðist persónu sinni er göfug, en er hún raunveruleg? Var það t.d. einskær tilviljun að í svokölluðu „Hells Angels“ máli, þar sem Hæstiréttur var skipaður fjórum karldómurum og einum kvendómara, að það var eingöngu kvendómarinn sem vildi sakfella fyrir nauðgun? Eða var það einskær tilviljun að sama ár var sami kvendómari sá eini (af fimm) sem vildi sakfella fyrir kynferðisbrot gegn 14 ára barni? Ég legg áherslu á að kvendómarinn var að beita sömu lögum og karlkyns samdómendur hennar. Ætlum við að láta eins og kyn hafi ekki skipt neinu máli í þessu samhengi? Óttumst við kannski að ef við viðurkennum að kynferði dómara skiptir máli sé búið að eyðileggja göfugu hugmyndina um skikkjuklæddu og persónulausu veruna?

Innihaldslausir frasar

Lögmenn eru í reynd löngu búnir að viðurkenna að þessi vera er ekki til. Þess vegna forðast þeir að styggja dómara og kjósa ákveðna dómara umfram aðra. Það er ekki fyrr en við förum að tala um kynferði og hæfi í sömu setningunni, og augljósan skort á kvendómurum í Hæstarétti, sem menn byrja að dusta rykið af innihaldslausum frösum um þjóna réttarins.

Að mínu mati er það einfeldningsháttur að halda að reynsla og per­sónulegir eiginleikar dómara muni ekki hafa áhrif á störf hans. Hjá því verður ekki komist. Það þýðir ekki að hann eða hún sé verri dómari. Það þýðir heldur ekki að dómarar hætti að beita hinni lagalegu aðferð og byrji niðurstöðukafla dóma á „mér finnst“. Það þýðir bara að dómarar eru manneskjur og hætta ekki að vera manneskjur þegar þeir klæða sig í skikkjuna. Þess vegna viljum við að Hæstiréttur endurspegli samfélag okkar betur. Það er eðlileg og málefnaleg krafa. Gott fyrsta skref til að nálgast það markmið væri að taka af allan meintan vafa um að jafnréttislög gilda um skipan dómnefndar.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×