Erlent

Error 53 gæti eyðilagt iPhone-símann þinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Óvottuð viðgerð og uppfærsla yfir í iOS 9 gæti gert iPhone-símann þinn ónothæfann.
Óvottuð viðgerð og uppfærsla yfir í iOS 9 gæti gert iPhone-símann þinn ónothæfann. Vísir/Getty
iPhone 6 eigendur eru margir hverjir ósáttir við Apple eftir að hafa fengið villumeldinguna 'Error 53' upp á skjá síma síns. Gerir hún það að verkum að síminn verður algjörlega ónothæfur og svo virðist sem ekkert sé hægt að gera við því.

Villumeldingin kemur upp hjá þeim sem látið hafa lagað 'home-takkann' á símum sínum af einhverjum sem ekki er vottaður af Apple og í kjölfarið sett upp nýjustu útgáfu af iOS-stýrikerfinu, iOS 9.

Eftir að villumeldingin kemur upp deyr síminn algjörlega og ómögulegt getur reynst að sækja þau gögn sem á honum voru.

Í frétt The Guardian um málið kemur fram að tæknisérfræðingar haldi því fram að Apple viti af vandamálinu en ætli sér ekki að gera neitt í því. Einnig er rætt við ljósmyndarann Antonio Olmos sem varð svo óheppinn að fá villumeldinguna upp hjá sér.

Hann hafi látið laga síma sinn í Makedóníu þar sem hann var við störf. Hafi síminn virkað fullkomlega þangað til hann setti upp nýjustu útgáfu af iOS á símanum sínum. Innan örfárra sekúndna hafi villumeldingin komið upp og síminn hafi verið ónothæfur síðan.

Talsmaður Apple segir að villumeldingin sé af öryggisástæðum. Hver iPhone-sími sé paraður við fingrafaraskannan í símanum. Sé þetta samband rofið með því að setja upp óvottaðan takka á óvottuðu Apple-verkstæði verði síminn ónothæfur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×