Handbolti

Erlingur missir tvo lykilmenn í erfið meiðsli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Drux í leik með þýska landsliðinu.
Drux í leik með þýska landsliðinu. Vísir/Getty
Vikan hefur verið erfið fyrir Erling Richardsson, þjálfara þýska úrvalsdeildarfélagsins Füchse Berlin.

Þýski landsliðsmaðurinn Paul Drux og sænski hornamaðurinn Mattias Zachrisson hlutu báðir erfið meiðsli á öxl á undirbúningstímabilinu og verða frá næsta hálfa árið hið minnsta.

Þetta er ótrúleg óheppni fyrir refina frá Berlín en fyrir síðasta tímabil misstu þeir lykilmenn eins og Denis Spoljaric, Bartlomiej Jaszka og Colja Löffler í erfið meiðsli sem hafði mikil áhrif á tímabilið.

Miklar vonir eru bundnar við Drux sem var í lykilhlutverki hjá Degi Sigurðssyni, þjálfara þýska landsliðsins, á HM í Katar í janúar. Dagur hætti sem þjálfari Füchse Berlin í vor og Erlingur tók við.

Bjarki Már Elísson kom til liðsins í sumar en deilir stöðu vinstri hornamanns í liðinu með Svíanum Fredrik Petersen. Zachrisson spilar sem hægri hornamaður.

Það verður erfitt fyrir Erling að fylla í skarð Drux en Bob Hanning, framkvæmdastjóri félagsins, útilokar ekki að fá nýja skyttu til félagsins í sumar í ljósi meiðslanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×