Viðskipti innlent

Erlendir sjóðir fjárfestu fyrir 420 milljónir króna í Takumi

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Úr höfuðstöðvum Takumi.
Úr höfuðstöðvum Takumi. MYND/TAKUMI
Nýsköpun Íslenska sprotafyrirtækið Takumi International tryggði sér fjármögnun upp á þrjár milljónir punda, eða sem nemur 420 milljónum króna, frá breskum og bandarískum sjóðum og englafjárfestum í annarri fjármögnunarumferð fyrirtækisins. Heildarfjárfesting í fyrirtækinu frá því að það var stofnað fyrir tæpum þremur árum nemur tæplega 1,3 milljörðum króna.

Takumi, sem er markaðstorg fyrir auglýsendur og áhrifavalda á Insta­gram, var stofnað af Guðmundi Eggertssyni, Jökli Sólberg og Mats Stig­zelius í nóvember 2015. Síðan hefur fyrirtækið vaxið ört. Það hefur starfsstöðvar í Reykjavík, London, Berlín og New York, og alls 40 starfsmenn, þar af níu á Íslandi.

„Hugmyndin kom þegar Insta­gram var orðinn einn stærsti samfélagsmiðillinn og margir notendur voru orðnir stórir á staðbundinn mælikvarða, þó að þeir hefðu ekki nærri því jafn marga fylgjendur og stórstjörnur. Það getur verið mikið umstang fyrir auglýsendur að vinna með mörgum litlum áhrifavöldum í einu og við sáum því fyrir okkur markaðstorg sem gerði þeim það kleift,“ segir Jökull.

Takumi hefur unnið með 800 vörumerkjum og 15.000 áhrifavöldum. Fyrr á árinu hóf fyrirtækið samstarf með vörumerkjum á borð við Heinz, Nestlé og Gillette. „Við erum þegar leiðandi á sviði áhrifa­valda­markaðs­setningar í Bretlandi og Þýskalandi sem eru stærstu auglýsingamarkaðir Evrópu. Fjármagnið munum við nota til að styrkja forritarateymið okkar og vöxt á Bandaríkjamarkaði.“

Aðspurður segir Jökull samkeppnina á markaðinum harða og býst hann við samþjöppun og grisjun á næstunni. „Það fengu margir sömu hugmynd á sama tíma og nú eru of mörg fyrirtæki á markaðinum,“ segir Jökull en bætir við að Takumi sé vel í stakk búið til að takast á við hræringar á markaðinum. Fyrirtækið hafi lagt mikið í að byggja upp fyrirtækið.

Áhrifavaldamarkaðssetning hefur sprungið út á fáum árum og er eftir miklu að slægjast. Nefnir Jökull að samkvæmt greiningu markaðsrannsóknafyrirtækisins eMarketer hafi einum milljarði dollara verið varið í áhrifavaldamarkaðssetningu á alþjóðavísu í fyrra þó að aðeins sé tekið tillit til Instagram-hluta markaðarins. – thf






Fleiri fréttir

Sjá meira


×