Innlent

Erlendir sjálfboðaliðar dreifa hrossaskít í Hafnarfirði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Víða er eyðilegt í upplöndum Hafnarfjarðar.
Víða er eyðilegt í upplöndum Hafnarfjarðar. vísir/pjetur
Félagið Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs hyggst í sumar dreifa um 1.200 tonnum af hrossaskít á örfoka land í Hafnarfirði. Fá á erlenda sjálfboðaliða og hafnfirskt skólafólk til verksins.

Áætlun Gróðurs fyrir fólk (GFF) var lögð fram í umhverfis- og framkvæmdaráði Hafnarfjarðar í gær undir liðnum uppgræðsla í Krýsuvík. Óskar félagið eftir 2,5 milljóna króna styrk. Síðustu fjögur ár hefur framlag bæjarins til félagsins numið alls 5,8 milljónum króna.

„Þegar eru komin á Vistvang rúmlega 800 tonn af hrossataði úr Hafnarfirði. Þetta magn bíður vélar- og handafls til að gagnast við uppgræðslu á árinu 2017. Allt að 400 tonn munu að líkindum bætast við á yfirstandandi losunartímabili,“ segir í bréfi GFF.

„Meginmagni þess taðs sem komið er og komið verður á Vist­vang verður dreift af mannskap, erlendum sjálfboðaliðum, sem GFF mun koma með á svæðið en þó einna helst af vélarafli sem GFF mun einnig kveðja til,“ segir áfram í bréfinu.

Enn fremur kemur fram að til standi að fara með heilan árgang úr Flensborg í apríl til að planta trjám og koma til gróðri á örfoka landi. Þá standi yfir viðræður við grunnskólana Setbergsskóla og Víðistaðaskóla um verkefnið Land-Nám á Vistvangi í maí og júní. „Það snýst um trjáplöntun, vöktun nemenda á árangri hennar og úrvinnslu í skólastofunni á gögnum er nemendur sjálfir hafa aflað í leiðöngrum sínum.“ Um haustið kanni börnin síðan árangurinn. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×