Viðskipti innlent

Erlendar krónueignir geta sloppið út gegnum íbúðabréf

Greining Arion banka veltir því fyrir sér afhverju erlendir krónueigendur nýti sér ekki íbúðabréf til að losna við krónur sínar yfir í gjaldeyri. Þetta er vel hægt einkum með því að nýta sér stysta íbúðabréfaflokkinn. Með kaupum í honum þurfa erlendu krónubréfaeigendurnar ekki að bíða eftir afnámi gjaldeyrishaftanna.

Fjallað er um málið í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir að í nýlega birtri ræðu aðstoðarseðlabankastjóra, Arnórs Sighvatssonar, kemur fram að krónueign erlendra aðila nemi í kringum 400 milljörðum kr. en við það bætast reyndar uppsafnaðir vextir. Innlán nema um 170 milljörðum kr., ríkisbréf um 210 milljörðum kr. og verðtryggð bréf um 20 milljörðum króna.

„Þessi eignadreifing er athyglisverð í ljósi þess að erlendum aðilum er heimilt að selja allar þær krónur sem koma til vegna greiðslna af íbúðabréfum, sem eru verðtryggð," segir í Markaðspunktunum.

„ Stysti íbúðabréfaflokkurinn er HFF14 en síðasta greiðsla þess flokks er árið 2014. Erlendir aðilar gætu þannig losað krónustöður sínar hér á landi út á næstu fjórum árum , þrátt fyrir að stærð flokksins setji þar ákveðnar hömlur. Þar sem bréfin eru jafngreiðslubréf gætu þeir komið út stórum hluta peninga sinna út á næstu misserum. Spurningin hlýtur því að vera, af hverju eiga erlendir aðilar nánast engin stutt íbúðabréf?"

Greiningin segir að mögulegar ástæður gætu verið þrjár. Í fyrsta lagi að erlendir aðilar vonist til að höftunum verði aflétt fyrr.

Í öðru lagi að markaðsvirði HFF14 er aðeins 35 milljarðar kr. sem veldur því að erlendir aðilar gætu aðeins komið litlum hluta krónueignar sinnar út með þessum hætti. Næstu íbúðaflokkar þar á eftir eru það langir að erlendir aðilar hafa engan áhuga á að eiga í þeim.

Og í þriðja lagi að erlendir aðilar viti ekki af þessu.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×