Innlent

Erill hjá lögreglu liðna nótt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikið var um að vera hjá lögeglunni í nótt.
Mikið var um að vera hjá lögeglunni í nótt. Vísir/HARI
Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Þannig bárust tvær tilkynningar um heimilisofbeldi og líkamsárás, annars vegar í Austurbænum og hins vegar í Hafnarfirði. Í báðum tilfellum var karlmaður handtekinn og færður í fangageymslur að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Rétt um klukkan fjögur í nótt var svo akstur bifreiðar stöðvaður í Austurbænum. Við athugun lögreglu kom í ljós að bíllinn var stolinn, á röngum skráningarnúmerum, ökumaðurinn réttindalaus og undir áhrifum fíknefna. Með ökumanninum voru tveir farþegar, á öðrum fundust fundust ætluð fíkniefni og skuldaði sá einnig á aðra milljón í sektargreiðslur. Allir vistaðir í fangageymslu vegna málsins og verða þeir yfirheyrðir síðar í dag.

Þá var tilkynnt um líkamsárás í húsi í Austurbænum rétt fyrir hálftvö í nótt. Meintur árásarmaður var farinn af vettvangi en sá sem ráðist var á var fluttur á slysadeild til aðhlynningar en sauma þurfti nokkur spor í höfuð hans.

Um þrjúleytið var svo tilkynnt um mann í geðrofi í húsi í Kópavogi. Þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að maður var búinn að neyta einhverra efna, hann veittist að lögreglumönnum með spörkum og höggum og því var hann handtekinn og fluttur í fangageymslu lögreglu við Hverfisgötu. Þar verður hann vistaður þar til hann verður yfirheyrður síðar í dag.

Rétt um klukkan hálfsex var svo maður handtekinn í Breiðholti fyrir að hafa sparkað upp hurð á og farið inn í sameign. Var hann vistaður í fangageymslu vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×