Innlent

Erfitt þegar skipulagsdagar skólanna eru ekki þeir sömu

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Á ungbarnaleikskólanum. Hafdís Ósk Pétursdóttir með Degi Kára sem er 18 mánaða.
Á ungbarnaleikskólanum. Hafdís Ósk Pétursdóttir með Degi Kára sem er 18 mánaða. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Þegar vetrarfrí elsta barns Hafdísar Óskar Pétursdóttur og Sveinbjörns Jónssonar hófst á dögunum áttu þau ekkert frí inni frá síðasta sumri. „Það var því lítið sem við gátum gert til að eiga saman fjölskyldustundir,“ segir Hafdís sem á þrjú börn, 7, 3 og 1 árs.

Yngri börn Hafdísar, sem býr í Reykjavík, eru í leikskóla, það eldra í hverfisleikskóla en það yngra á ungbarnaleikskóla þar sem Hafdís er deildarstjóri. Ekki er víst að báðum leikskólunum verði lokað á sama tíma í sumar, að sögn Hafdísar. „Það er nefnilega kosið um það í öðrum leikskólanum hvenær sumarsins eigi að hafa lokað. Næsta sumar gæti þess vegna orðið höfuðverkur og ég sé fram á að við hjónin tökum hluta af sumarfríinu okkar hvort í sínu lagi til að ná örugglega að spanna allt sumarfrí barnanna. Við munum væntanlega ekki eiga neitt frí inni næsta vetur sem gott væri að eiga vegna vetrarfrís elsta barnsins og skipulagsdaga í skólum allra barnanna.“

Skipulagsdagar í grunnskóla og leikskólum barnanna dreifast að mestu leyti, að sögn Hafdísar. „Af sex skipulagsdögum í hverfisleikskólanum eru þrír sameiginlegir með grunnskólanum. Það er gott að fá þessa þrjá daga en auðvitað væri best að þeir væru allir sameiginlegir en ég hef vissan skilning á því hvers vegna svo er ekki. Grunnskólinn hefur skipulagsdaga sem næst fríum eins og jólafríi, páskafríi og sumarfríi. Þessir skipulagsdagar henta ekki leikskólunum sem fá fólk til að flytja fyrirlestra á sínum skipulagsdögum. Það er erfiðara að fá fyrirlesara í kringum frí.“

Skipulagsdagarnir í grunnskólanum eru talsvert fleiri en í hverfisleikskólanum en skipulagsdagarnir í ungabarnaleikskólanum þar sem Hafdís starfar eru sex eins og í hverfisleikskólanum en ekki allir þeir sömu. „Leikskólinn sem ég starfa í er sjálfstæður skóli sem tekur á móti börnum úr öllum hverfum. Hann getur því ekki miðað við skipulagsdaga grunnskólanna,“ greinir Hafdís frá.

Hún segir foreldrana skipta á milli sín eins og hægt er að vera heima með börnunum þegar skólar eru lokaðir. „Fyrir utan jóla- og páskafrí þurfum við að manna um það bil 10 daga. Ég hef leyfi til þess að taka börnin með mér í vinnuna en þau geta ekki verið hjá mér í vinnunni allan daginn. Ég hugsa að ég verði heima fimm daga í vetur vegna skipulagsdaga og vetrarfrís. Maðurinn minn verður heima alla sex dagana þegar skipulagsdagar eru á ungbarnaleikskólanum því að þá þarf ég að vera í vinnunni. Svo erum við svo heppin að eiga góðar ömmur sem hjálpa til eins og þær geta.“

Hafdís tekur það fram að skipulagsdagar séu nauðsynlegir í skólastarfi en hún veltir því fyrir sér hvort vinnumarkaðurinn þurfi ekki að laga sig að breyttum aðstæðum. „Í nágrannalöndum okkar er gert ráð fyrir að foreldrar fái frí á skólafrídögum til að geta verið með börnunum sínum. Það mætti einnig velta því fyrir sér hvort fólk ætti ekki að fá lengra sumarfrí á meðan börnin eru ung og þurfa mikla umönnun og dögunum fækkaði frekar þegar börnin væru betur í stakk búin til að hugsa um sig sjálf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×