Íslenski boltinn

Erfitt fyrir þjálfara að gera framtíðaráætlanir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur var síðast í Danmörku fyrir áratug.
Ólafur var síðast í Danmörku fyrir áratug. fréttablaðið/daníel
Ólafur Kristjánsson var í gær ráðinn þjálfari danska úrvalsdeildarfélagsins FC Nordsjælland frá og með næsta tímabili. Hann tekur við starfinu 1. júlí en mun stýra liði Breiðabliks, líkt og hann hefur gert frá miðju tímabili 2006, í fyrstu sex leikjum Pepsi-deildar karla nú í vor.

Ólafur sagði í samtali við Fréttablaðið að forráðamenn danska liðsins hefðu fyrst sett sig í samband við hann í síðasta mánuði og hlutirnir gerst hratt síðustu 2-3 vikur. Danskir fjölmiðlar komust á snoðir um málið á mánudagskvöld og þá var fréttin fljót að spyrjast út.

Breiðablik sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem fram kom að Ólafur myndi flytja út til Danmerkur í byrjun júní. Þangað til héldi hann áfram störfum fyrir Breiðablik en nýtt tímabil í Pepsi-deild karla hefst þann 4. maí.

Guðmundur Benediktsson, aðstoðarþjálfari Ólafs undanfarin þrjú tímabil, mun svo taka við starfi Ólafs þann 2. júní.

„Þetta mun engu breyta hjá mér fyrir þessa leiki,“ sagði Ólafur í samtali við Fréttablaðið í gær. „Allir hafa val um hvort þeir láta þetta hafa áhrif á sig eða ekki. Við þurfum að velja síðari kostinn og láta þetta frekar leiða til góðs. Ég er að minnsta kosti fullur orku og ætla mér að skila liðinu af mér í eins góðri stöðu og mögulegt er.“

Hann segir að markmið liðsins og allra þar sé að stefna að Íslandsmeistaratitlinum. „Það er markmið okkar allra að fara eins langt og hægt er,“ segir hann.

Reynir að fullnægja metnaðinum

Ólafur sagðist ánægður með að fá tækifæri til að þjálfa í sterkri deild, en hann þekkir vel til í Danmörku eftir að hafa spilað og síðar þjálfað hjá AGF í Árósum.

„Ég er ánægður með að fá þetta tækifæri. Ég hef alltaf haft mikinn metnað og maður verður að reyna að fullnægja honum,“ segir Ólafur en hann ætlar þó ekki að fara allt of langt fram úr sér.

„Framtíðin skapast af því sem maður gerir í núinu. Hvort ég verð í 2-3 ár eða 10-15 ár mun ráðast af því hvernig ég starfa og hvernig liðinu gengur. Ætli það sé ekki einna erfiðast að gera sér langar framtíðaráætlanir fyrir knattspyrnuþjálfara og því mun ég láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Ég ætla að vinna eins vel og reyna að láta gott af mér leiða, eins og ég hef reynt hingað til,“ segir Ólafur.

Vildi komast í sterkari deild

Ísland hefur eignast fjölda atvinnumanna í knattspyrnu undanfarin misseri og þá hafa íslenskir handboltaþjálfarar einnig gert það gott í bestu deildum Evrópu. Ólafur segir að hann hafi ávallt haft metnað til að koma sér að í sterkari deild en þeirri íslensku.

„Það var eitt af þeim draumamarkmiðum sem maður hafði alla tíð,“ sagði Ólafur sem fær nú það verkefni að koma liðinu aftur í hæstu hæðir. Nordsjælland varð bikarmeistari árið 2010 og 2011 og tryggði sér svo danska meistaratitilinn árið 2012.

Liðið siglir nú nokkuð lygnan sjó um miðja deild í Danmörku en liðið situr í sjöunda sæti þegar fimm umferðum er ólokið á tímabilinu.


Tengdar fréttir

Guðmundur tekur við Breiðabliki

Guðmundur Benediktsson mun stýra liði Breiðabliks í Pepsi-deild karla sumar þar sem að Ólafur Kristjánsson er hættur störfum hjá félaginu.

Ólafur: Einbeiti mér nú að Blikum

Ólafur Kristjánsson segir í viðtali sem birtist á heimasíðu Nordsjælland að hann hlakki til að takast á við nýjar áskoranir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×