Erlent

Erfitt að vekja dauðan mann til lífsins

Atli Ísleifsson skrifar
Fjölskylda mannsins hefur nú verið krafin um endurgreiðslu á jafnvirði um fimm milljóna króna.
Fjölskylda mannsins hefur nú verið krafin um endurgreiðslu á jafnvirði um fimm milljóna króna. Vísir/Getty
Dómstóll í Ohio-ríki hefur úrskurðað að 62 ára gamall maður sé enn látinn, þrátt fyrir að hann hafi staðið lifandi fyrir framan dómarann þegar úrskurðinn var kveðinn upp. Bandarísk yfirvöld hafa nú krafið fjölskyldu mannsins um jafnvirði fimm milljónir króna.

Donald Miller Jr lét sig hverfa úr bænum Arcadia í Ohio undir lok níunda áratugarins og hafði maðurinn ekki skilið eftir sig neinar vísbendingar um hvað hafði orðið um hann. Árið 1994 úrskurðaði dómstóll svo Miller látinn.

Í ágúst á síðasta ári sneri Miller hins vegar aftur og hefur málið gert starfsmönnum yfirvalda lífið leitt.

Miller segist sjálfur hafa dvalið í fjölda ríkja síðan hann lét sig hverfa fyrir um aldarfjórðungi síðan. Þegar hann sneri aftur til bæjarins Findley í Ohio mistókst honum hins vegar að sannfæra yfirvöld um að hann væri raunverulega á lífi. Miller hafði verið látinn of lengi, eða lengur en þrjú ár, en samkvæmt lögum í Ohio er einfaldlega ekki mögulegt að vekja manninn aftur lagalega til lífsins.

Í frétt DN segir að bandarísk yfirvöld líti málið hins vegar öðruvísi augum og hafa nú farið fram á að fjölskylda mannsins endurgreiði ríkinu um fimm milljón króna upphæð sem ríkið greiddi til dætra Miller og „ekkju“ hans þegar Miller var úrskurðaður látinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×