Innlent

Erfiður og sérstakur tími fyrir Háskóla Íslands

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kristín Ingólfsdóttir segist ekki ætla í forsetaframboð.
Kristín Ingólfsdóttir segist ekki ætla í forsetaframboð. Vísir/Stefán
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, tilkynnti á opnum fundi með starfsfólki skólans í dag að hún hyggist ekki sækjast eftir endurkjöri á næsta ári. Hún hefur verið rektor frá árinu 2005.

Í samtali við Vísi segir hún tíma sinn sem rektor hafa verið bæði sérstakan og erfiðan vegna efnahagshrunsins.

„Þrátt fyrir miklar skerðingar á fjárframlögum til skólans þá hafa síðustu ár engu að síður verið mikill sóknartími. Það hefur náðst ótrúlegur árangur bæði hjá starfsfólki og stúdentum sem hafa fylkt sér um stefnu skólans og þjónað honum eins og best verður á kosið,“ segir Kristín.

Hún segir að starfsfólki hafi tekist að halda rannsóknum áfram með því sækja í erlenda rannsóknarsjóði þar sem samkeppnin um styrki er gríðarlega hörð. Vísindamenn skólans hafi fengið styrki úr umræddum sjóðum og hafi það gefið svigrúm til að halda rannsóknum við Háskólann gangandi.

„Ég vil svo sérstaklega taka það fram hvað stúdentar hafa staðið þétt við bakið á skólanum á þessum tíma og verið ötulir í baráttunni,“ segir Kristín.

Aðspurð um það markmið sem Háskólinn setti sér árið 2006 um að komast í hóp 100 bestu háskóla í heimi segir hún það hafa verið langtímamarkmið sem sett hafi verið fram ásamt skýrri stefnu um hvernig komast mætti í hóp þeirra bestu. Stefnan og markmiðið hafi verið sett fram með stuðningi stjórnvalda sem gerðu samning við Háskólann.



„Svo kom efnahagshrunið og samningurinn við stjórnvöld var blásinn af. Við héldum hins vegar okkar striki og héldum okkur við stefnuna sem sett hafði verið. Við komumst síðan á lista Times Higher Education yfir 400 bestu háskóla í heimi árið 2011 sem ég tel að hafi verið algjört kraftaverk eftir jafnerfiða tíma og fylgdu efnahagshruninu. Háskólinn var í sæti númer 269 á þessum lista í fyrra og hafði þá farið upp um 8 sæti milli ára.“

Kristín segir það kraftaverk að skólinn hafi komist á lista yfir 400 bestu háskóla í heimi í ljósi efnahagshrunsins.Vísir/GVA
Ætlar ekki í forsetaframboð

„Maður heyrir ýmislegt á göngunum,“ svarar Kristín hlæjandi aðspurð að því hvort hún hafi heyrt af mögulegum eftirmanni sínum í starfi. Hún segir þó að enginn hafi stigið fram en enginn skortur sé á hæfileikaríku fólki sem geti tekið við rektorsstöðunni.

Nafn Kristínar hefur oft komið upp í umræðunni um hver taki við sem forseti þegar Ólafur Ragnar Grímsson hættir, en hún staðfestir að hún ætli ekki í framboð.

„Nei, hugur minn liggur annað. Ég er auðvitað með hugann við komandi vetur hér í Háskólanum og efst á baugi eru fjármál skólans. Ég vil gjarnan koma hlutunum þannig fyrir að þegar ég láti af störfum geti nýr rektor og háskólasamfélagið allt litið björtum augum til framtíðar.“

Varðandi hvað taki við hjá henni þegar hún hættir segir Kristín: „Það eru ýmis verkefni í lyfjafræðinni sem ég hef hug á að sinna og svo hef ég mikinn áhuga á háskólamálum. Ég hef þegar tekið að mér verkefni fyrir evrópska háskóla sem ég mun þá geta sinnt betur þegar ég læt af störfum sem rektor.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×