Menning

Erfði sálmabók ömmu sinnar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Mörg sálmalög hafa lifað um aldir,“ segir Ástvaldur.
"Mörg sálmalög hafa lifað um aldir,“ segir Ástvaldur. Fréttablaðið/Valli
„Þarna verða sálmar sem ég hef verið að spila og útsetja og gaf út á plötunni Hymnasýn 2011,“ segir Ástvaldur Traustason píanisti um tónleika sína norðan heiða um helgina.

Hann verður í Dalvíkurkirkju klukkan 17 á laugardag og í Akureyrarkirkju klukkan 16 á sunnudag.

„Ég hafði samband við kirkjurnar fyrir norðan og það var auðsótt mál að fá að flytja efnið þar. Ég hlakka til. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer út fyrir borgarmörkin þeirra erinda.“

Ástvaldur er búddaprestur og segir það eflaust þykja skrítið að hann spili kristna sálma í kirkjum í djassútsetningum. „Þetta er svolítið skitsó,“ viðurkennir hann.  En hvernig kom þetta til?

„Ég erfði sálmasöngbók eftir ömmu mína. Segja má að ég hafi bara rétt snert yfirborðið því efnið er svo mikið að það fór langur tími í að velja úr því. Það er ótrúlegt hvað sálmaarfurinn okkar er sterkur, mörg falleg lög hafa lifað með þjóðinni um aldir.

Spurður hvort hann leiki þekkta sálma á tónleikunum svarar Ástvaldur: „Sumir eru vel þekktir, til dæmis Víst ertu, Jesú, kóngur klár. Svo er ég með þrjá samtímasálma við lög eftir Þorkel Sigurbjörnsson sem lést fyrir rúmu ári. Mig langaði að gera honum svolítið hátt undir höfði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×