Erlent

Erdogan segir ESB fasískt

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti vill meiri völd.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti vill meiri völd. vísir/epa
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir Evrópusambandið ekki lengur geta beitt hann þrýstingi með hótunum um að slíta aðildarviðræðum við Tyrkland eða ógilda samninginn um flóttamenn.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Tyrklandi í næsta mánuði muni hann ekki láta sig þetta tvennt neinu varða. Hann muni byggja upp algerlega nýtt Tyrkland.

Hann segir Evrópusambandið vera fasískt og grimmilegt. Ástandið í Evrópu núna minni sig á aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 16. apríl taka Tyrkir afstöðu til stjórnarskrárbreytinga, sem eiga að tryggja Erdogan stóraukin völd á kostnað bæði þings og ríkisstjórnar.

Erdogan hefur líkt bæði hollenskum og þýskum stjórnvöldum við nasista.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×