Erlent

Erdogan féll frá lögsóknum á hendur fólki sem hefur móðgað hann

Heimir Már Pétursson skrifar
Forseti Tyrklands hefur ákveðið að falla frá um tvö þúsund lögsóknum á hendur fólki sem hefur að hans mati móðgað hann sem þjóðhöfðingja. Hann lýsti því jafnframt yfir að þeir sem sýndu valdaránsmönnum samúð væru engir vinir Tyrklands.

Gríðarlegar hreinsanir hafa átt sér stað í Tyrklandi eftir misheppnað valdarán hluta hersins dagana 15. og 16. júlí síðastliðinn og hafa tugir þúsunda manna verið handteknar og svift embættum sínum. Þá hefur miklum fjölda fjölmiðla verið lokað. Recep Tayyip Erdogan forseti landsins er einstaklega hörundssár þjóðarleiðtogi og hafa um tvö þúsund manns verið lögsótt fyrir niðrandi ummæli um forsetann eða teiknimyndir sem setja hann í skoplegt eða gagnrýnið ljós frá því hann tók við völdum fyrir átján mánuðum. Í dag opnaði forsetinn menningarsetur í Ankara til heiðurs fórnarlamba valdaránstilraunarinnar og virtist þá hafa myldast aðeins.

„Ég vil nýta þetta tækifæri til að draga öll dómsmál vegna til baka gegn þeim sem hafa vanvirt mig og móðgað í gegnum tíðina,“ sagði Erdogan á opnum fundi.

Þetta sagðist forsetinn gera í anda þeirrar samstöðu sem skapast hefði í landinu eftir valdaránstilraunina. En það getur varðað allt að fjórum árum í fangelsi að móðga forsetann samkvæmt tyrkneskum lögum sem hefur nánast aldrei verið beitt fyrir valdatöku Erdogans fyrir átján mánuðum. Hann hefur beitt lögunum gegn blaðamönnum, teiknurum, fræðimönnum og jafnvel börnum. En þótt forsetinn hafi fallið frá þessum tvö þúsund lögsóknunum vandar hann ríkjum sem hafa gagnrýnt hreinsanirnar eftir valdaránstilraunina ekki kveðjurnar og sakar leiðtoga þeirra um óheiðarleika.

„Höfum eitt á hreinu. Hvert ríki og hver leiðtogi sem hefur meiri áhyggjur af afdrifum byltingarmannannna, heldur en rétti Tyrkja til að lifa og framtíð Tyrklands, þeir eru ekki vinir Tyrklands.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×