Erlent

Erdogan biður Rússa afsökunar

Atli Ísleifsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. Vísir/AFP
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur beðið Rússa afsökunar á að Tyrklandsher skaut niður rússneska herþotu á landamærum Sýrlands og Tyrklands í nóvember síðastliðinn. BBC greinir frá þessu.

Talsmaður Rússlandsstjórnar greinir frá þessu og segir að Erdogan hafi sent Vladimír Pútín Rússlandsforseta bréf þar sem hann harmar atvikið og vottar fjölskyldu flugmannsins sem lést samúð sína. Segist Erdogan vilja koma samskiptum milli ríkjanna í venjulegt horf á nýjan leik.

Mikil spenna hefur verið í samskiptum ríkjanna síðustu mánuði þar sem Tyrkir hafa ítrekað sakað Rússlandsher um að rjúfa lofthelgi Tyrklands, en Rússlandsher hefur aðstoðað Sýrlandsstjórn í baráttunni við ISIS-liða og aðra uppreisnarhópa í Sýrlandi.

Rússar brugðust við málinu með því að koma á viðskiptaþvingunum gegn Tyrkjum og stöðva allar pakkaferðir frá Rússlandi til tyrkneskra ferðamannastaða.

Pútín sagði á sínum tíma að þvingunum yrði ekki aflétt fyrir en Tyrkir hefðu beðist afsökunar á málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×