Skoðun

Er þitt fyrirtæki aðlaðandi?

Ketill Berg Magnússon skrifar
Að skapa trúverðugt fyrirtæki sem kemur fram af ábyrgð við fólk og umhverfið getur skapað samkeppnisforskot um besta starfsfólkið.

Því er oft slegið fram að í mannauðnum felist mestu verðmæti fyrirtækja. Það er rétt að í flestum fyrirtækjum veltur árangurinn á þekkingu, færni og samsetningu starfsfólksins. Ein helsta martröð margra fyrirtækjaeigenda er að lykilstarfsfólkið muni einn daginn ganga út og leita á önnur mið. Svo eru til stjórnendur sem klóra sér í hausnum því þeim tekst ekki að laða að gott fólk. Fyrirtækið þeirra er einfaldlega ekki spennandi vinnustaður.

Ýmislegt bendir til að starfsfólk meti fleira en launin og verkefnin þegar það velur sér vinnustað. Ungt og vel menntað fólk kemur víðsýnt út úr námi vill gjarnan leggja sitt af mörkum til að skapa betra samfélag. Það leitar gjarnan að fyrirtækjum þar sem samhljómur er á milli þeirra gilda sem fyrirtækið stendur fyrir og sinna eigin lífsgilda. Það leitar að ábyrgum vinnuveitanda. Ef starfsmaðurinn telur verndun náttúrunnar mikilvæga þá vill hún að fyrrtækið sé með trúverðuga stefnu og aðgerðir til að starfsemi þess raski sem minnst umhverfinu. Ef starfsmanninum finnst jafnrétti kynjanna mikilvægt þá er líklegt að hann velji sér fyrirtæki sem borgar kynjunum jöfn laun og lætur kynferðislega áreitni ekki líðast á vinnustaðnum.

Fyrirtæki sýna samfélagsábyrgð með því að gera það sem þau geta til að hafa jákvæð áhrif á náttúruna og fólkið sem starfsemin snertir. Ábyrgðin felst ekki í að slá upp fögrum frösum eða eingöngu gefa árlega til góðgerðamála. Samfélagsábyrgð felur í sér skipulagt mat á áhrifum fyrirtækisins á umhverfið og alla þá hópa sem verða fyrir áhrifum af starfsemi þess, þar á meðal starfsfólkið. Hluti af því felst í að uppræta valdamisnotkun og kynferðislega áreitni. Þar axla fyrirtækin ábyrgð sína með raunverulegum aðgerðum. Með því að gefa skýr skilaboð um að valdbeiting verði ekki liðin, með verkferlum og öruggum leiðum til að láta vita af misbeitingu, með umræðu og fræðslu meðal starfsfólks og með þvi að bregðast rétt við þegar starfsfólk verður fyrir misbeitingu. Að skapa vinnustað jafnréttis skilar sér í betri vinnustað og í betri afkomu fyrirtækisins því þá fá þeir hæfileikaríku að njóta sín, ekki bara þeir sem beita valdi.

Með reglulegum viðhorfskönnum og samtölum reyna fyrirtæki að meta hversu ánægt starfsfólkið er og hversu líklegt er að það vilji áfram vinna hjá þeim. Það hlýtur alltaf að vera keppikefli fyrirtækja að skapa góðan vinnustað, en þegar næga vinnu er að fá, þá getur það veitt mikilvægt samkeppnisforskot að vera hafa byggt upp ábyrgan vinnustað þar sem starfsfólk treystir og langar til að starfa hjá.

Á Janúarráðstefnu Festu þann 25. janúar næstkomandi verður fjallað um hvernig ábyrgð í rekstri er arðsöm. Þar mun forsvarsfólk íslenskra fyrirtækja meðal annars ræða hvernig samfélagsábyrgð fyrirtækja getur haft jákvæð áhrif á starfsfólkið.




Skoðun

Sjá meira


×