Körfubolti

Er þetta það sem koma skal hjá Golden State Warriors í vetur? | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant og Steph Curry.
Kevin Durant og Steph Curry. Vísir/Getty
NBA-tímabilið hefst í næstu viku og flestir NBA-áhugamenn bíða spenntir eftir því að sjá hvernig samvinna Kevin Durant og nýju liðsfélaga hans í Golden State Warriors muni ganga.

Golden State Warriors setti nýtt met í sigurleikjum á síðasta tímabili en missti af titlinum eftir tap í oddaleik á heimavelli á móti Cleveland Cavaliers.

Liðið bætti síðan við sig einum besta leikmanni NBA-deildarinnar í sumar þegar Kevin Durant ákvað að yfirgefa Oklahoma City Thunders og semja við Warriors.

Kevin Durant er byrjaður að spila með Warriors-liðinu og þó að tímabilið sé ekki byrjað eru sérfræðingar þó farnir að lesa ýmislegt út úr leik liðsins. Umræddir sérfræðingar geta verið jákvæðir eftir leik næturinnar.

Golden State Warriors fór þá frekar létt með lið Los Angeles Lakers í undirbúningsleik þar sem nýja þrennning hjá Golden State sýndi styrk sinn.

Steph Curry, Kevin Durant og Klay Thompson skoruðu nefnilega 78 stig samanlagt í leiknum og voru auk þess með 17 stoðsendingar saman.

Steph Curry var með 32 stig og 5 stoðsendingar á 31 mínútu, Kevin Durant skoraði 27 stig og gaf 4 stoðsendingar á 31 mínútu og Klay Thompson bætti við 19 stigum og 8 stoðsendingum á 32 mínútum.

Hér fyrir neðan má sjá myndbönd frá leiknum í nótt en í neðra myndbandinu eru tvö hraðaupphlaup Golden State liðsins þar sem Steph Curry, Kevin Durant og Klay Thompson komu allir við sögu. Nú er bara stóra spurningin: Er þetta það sem koma skal hjá Golden State Warriors í vetur?

Fyrsti leikur Golden State Warriors verður á heimavelli á móti San Antonio Spurs 25. október næstkomandi.    

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×