Skoðun

Er pizzan mín eitruð, Illugi?

Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir skrifar
Ríkið hefur boðið þér í pizzu­partí. Illugi Gunnarsson þarf að skipta pizzunum á milli allra sem biðja um hluta. Hvernig ætti hann að skipta pizzunni? Gefur hann þeim sem eru horaðastir mest? Ætlar hann að gefa manninum með börnin eina eða tvær sneiðar? Gerði hann yfirhöfuð ráð fyrir börnum, pantaði hann margar­ítu? Eða lætur hann alla fá jafn mikið af pizzunni sama þótt þeir haldi á pizzukassa sjálfir? Hvað ef hluti af pizzunni er eitraður?

Nú liggur fyrir frumvarp á Alþingi um nýtt lánasjóðskerfi sem er að hluta til styrkjakerfi. Því ber að fagna að loksins hafi verið hlustað á stúdenta, en er þetta kerfið sem við báðum um? Er útfærslan sem sett hefur verið fram það sem stúdentar hafa verið að kalla eftir? Útfærsla sem tekur ekki mið af félagslegri stöðu í jöfnunarsjóð sem lánasjóðurinn á að vera. Útfærsla sem stúdentum var ekki boðið að taka þátt í.

Útfærslan sem boðuð er býður upp á misskiptingu. Hún eykur greiðslubyrði barnafólks og þeirra sem verr eru settir fjárhagslega umfram þá sem vel eru settir. Hún býður námsmönnum 40 ára verðtryggð lán sem meirihluti ríkisstjórnar segir að séu eitruð lán. Útfærslan gerir ráð fyrir að allir fái styrk en þeir sem þurfa á meiri hjálp að halda fái líka lán. Útfærslan gerir því ráð fyrir að allir fái eina sneið af pizzunni, óháð þörfum.

Er þetta virkilega kerfið sem við báðum um?

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×