Innlent

Er Íslandssagan rétt ef hér stóð hús árið 810?

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fornleifafræðingar rannsaka tóftirnar, sem fundust í túni við bæinn Stöð í Stöðvarfirði.
Fornleifafræðingar rannsaka tóftirnar, sem fundust í túni við bæinn Stöð í Stöðvarfirði. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Fornleifar á bænum Stöð í Stöðvarfirði virðast vera nýjasta vísbendingin um að einhverjir hafi verið búnir að reisa skála á Íslandi löngu fyrir árið 874, þegar fyrsti landnámsmaðurinn, Ingólfur Arnarson, er sagður hafa byggt bæ sinn í Reykjavík.

„C-14 greiningin segir að þetta sé mjög skömmu eftir árið 800. Ég hef engar ástæður til að vantreysta þeirri greiningu,“ segir Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur, sem síðastliðið sumar hóf að rannsaka minjarnar í botni Stöðvarfjarðar.

Bjarni rannsakar ennfremur skálatóftir í Höfnum á Reykjanesi sem virðast vera frá svipuðum tíma. Hann telur að tóftirnar þurfi þó ekki að vera á skjön við hina rituðu sögu og ræðir það nánar í lokaþætti Landnemanna á Stöð 2 á mánudagskvöld.

Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Í þættinum, sem ber heitið Sagnaarfurinn, verður spurt hvað sé að marka frásagnir Íslendingasagna og Landnámabókar af landnámi Íslands og hvort fornleifar styðji sögurnar. Greint verður frá nýrri rannsókn þýsks fornleifafræðings á aldursgreiningum frá landnámstíma sem gæti varpað skýrara ljósi á sannleiksgildi fornsagnanna.

Barði Guðmundsson, þjóðskjalavörður og alþingismaður, setti fyrst fram Herúlakenninguna árið 1939.
Leitin að uppruna Íslendinga þyrfti ekki að hætta í Noregi eða á Bretlandseyjum. Rifjuð er upp Herúlakenning Barða Guðmundssonar, um að stór hluti landnámsmanna væru afkomendur Herúla. Snorri Sturluson gæti í Snorra Eddu hafa stuðst við fornar arfsagnir af þjóðflutningum þegar hann ritaði um för Óðins og ættar hans frá Svartahafi til Norðurlanda. 

Þá verður greint frá nýlegri rannsókn hollensks og bandarísks vísindamanns á írskum rúnasteini. Þeir halda því fram að á steininum komi fram upplýsingar sem sýni að Ísland hafi fundist fyrir meira en fimm þúsund árum. 

Þátturinn er sýndur í opinni dagskrá að loknum fréttum klukkan 19.20 á mánudagskvöld. Hér má sjá sýnishorn úr þættinum. 

Þeir sem misstu af síðasta þætti geta séð hann í endursýningu á Stöð 2 síðdegis í dag, sunnudag, klukkan 16.55.

Svona sér norski listamaðurinn Anders Kvåle Rue fyrir sér að Ingólfur Arnarson hafi komið að öndvegissúlum sínum í Reykjavík árið 874. Myndin er í nýlegri norskri útgáfu af Flateyjarbók.Teikning/Anders Kvåle Rue

Tengdar fréttir

Voru skógarnir svona veglegir við landnám?

"Ég er sannfærður um það að allt láglendi landsins hafi litið svona út eins og þessi mynd sýnir,” segir Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×