Skoðun

Er heimanám gagnlegt eða gagnslaust?

BRYNJAR MARINÓ ÓLAFSSON skrifar
Nú er mikið rætt um heimanám, helst hef ég séð fyrirsagnir um að það steli tíma frá fjölskyldum, sé að auki sé gagnslaust og það eigi að leggja niður. Ég minntist þess frá mastersnámi mínu í kennslufræðum að hafa lesið um gagnsemi heimanáms og ákvað því að kanna málið betur. Ekki láta mér duga að gleypa við upphrópunum og fyrirsögnum. (Því miður finnst mér það of oft gert og oftar en einu sinni séð fyrirsagnir þar sem vitnað er í rannsóknir sem annað hvort eru svo ekki til staðar eða gagnslausar. Minnist nýlegs dæmis sem tröllreið netheimum a.m.k. á Íslandi sem sagði að sítrónusafi læknaði krabbamein. En það er efni í annan pistil.)

Hvaða rannsóknir?

Í mörgum greinum sem birst hafa í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum hef ég ekki séð hvaða rannsóknir er verið að vísa í þegar talað er um að heimanám skili ekki árangri. Sumstaðar er vísað í rannsóknir og er það gott. Oft er það samt þannig að hægt er að finna rannsóknir sem sýna fram á hvað sem er, meira að segja rannsóknir sem segja að tóbaksreykingar séu hættulausar.

Eftir að hafa leitað í gagnagrunni fagtímarita sem birta rannsóknir á sviði menntamála fann ég nokkrar áhugaverðar rannsóknir. Ein rannsókn tók saman niðurstöður tæplega 70 annarra rannsókna sem gerðar voru á tengslum milli heimanáms og námsárangur á árunum 1987-2003. Niðurstöðurnar eru að 50 rannsóknir sýndu fram á jákvæð tengsl milli heimanáms og námsárangurs meðan aðeins 19 sýndu fram á neikvæð tengsl. (Cooper o.fl., 2006. "Does homework improve academic achievement?".Review of Educational Reasearch).

Önnur víðtæk rannsókn sem ég leit til var TIMSS rannsókn frá árinu 1999. TIMSS er heiti yfir alþjóðlega könnun sem lögð er fyrir nemendur í 8. bekk í stærðfræði, að nokkru leyti sambærileg við PISA rannsóknir sem líklega fleiri kannast við að því leyti að TIMSS rannsóknir geta borið saman stöðu nemenda milli landa. Samhliða TIMSS rannsókninni frá 1999 var rannsakað í Japan tengsl milli heimanáms og árangurs í TIMSS rannsókninni. Spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur og svör nemenda borin saman við árangur þeirra í stærðfræðihluta TIMSS rannsóknarinnar. Niðurstöður gáfu til kynna að nemendur sem sögðu kennara sína oft setja fyrir heimavinnu stóðu sig að jafnaði betur í stærðfræðihlutanum en nemendur sem sögðust síður þurfa að læra heima (House, 2004. "The effects of homework ...". International Journal of Instructional Media). House vísar einnig í aðra rannsókn sem bar saman árangur í TIMSS milli þjóða og tengsl við heimanám. Sú rannsókn mun hafa sýnt að nemendur í skólum sem voru meðal stigahæstu skóla í TIMSS könnuninni sögðu gjarnan að hjá þeim væri daglega heimanám meðan nemendur í skólum sem voru með lakari árangur sögðust síður þurfa að læra heima (House, 2004).

Enn ein rannsókn sem ég skoðaði er frá árinu 2011 og fjallar um tengsl heimanáms við sjálfsaga, skipulagningu og að taka ábyrgð á eigin námi. Niðurstöðurnar sýndu fram á jákvæð tengsl milli heimanáms og allra þessara þátta auk fleiri þátta og náði rannsóknin til nemenda allt frá 4. bekk og upp til framhaldsskólanema. (Ramdas og Zimmerman, 2011. "The important role of homework". Journal of Advanced Academics.)

Ef rýnt er í þessar rannsóknir má vissulega sjá að árangur heimanáms ræðst m.a. af hvers eðlis það er, hve mikið það er og á hvaða aldri nemendur eru. Sjálfur er ég sanfærður eftir þennan lestur að fyrirsagnir um gagnsleysi heimanáms séu ekki réttar, þvert á móti sýna margar rannsóknir fram á hið gagnstæða.

Samanburður við tómstundarstarf

Landsliðsmenn í fótbolta hafa lýst því hvernig „aukaæfingin“ skilaði þeim árangri. Þeir sem ég hef rætt við og spila á hljóðfæri hafa sagt mér að árangur þar næst ekki með því að mæta t.d. í píanótíma tvisvar í viku og láta þar gott við sitja. Maður þarf að æfa sig líka heima. Af hverju ætti annað að eiga við í námi? Hjá yngstu nemendum grunnskóla er mikil áhersla lögð á lestur. Bæði sem kennari til næstum tuttugu ára og tveggja barna faðir veit ég að enginn verður góður í lestri með því að lesa smá í skólanum milli þess sem það þarf að fara í leikfimi, samfélagsfræði, sund, smíði, heimilisfræði, stærðfræði og fleira. Það er "aukaæfingin" sem gerir nemanda góðan í lestri.

Ég hef heyrt þau rök að viðvera nemenda í skólum hafi lengst mikið frá því sem áður var og því ætii að vera hægt að kenna allt sem þarf áður en deginum lýkur. Það er rétt að skóladagur og –ár hefur lengst en ekki má horfa fram hjá því að allt það sem á að kenna í grunnskólum hefur líka aukist. Hafa þeir sem halda í þessi rök skoðað nýlega allt það sem á að kenna skv. aðalnámskrá grunnskóla?

Af hverju vilja menn ekki heimanám?

„Skólinn er að stela tíma af fjölskyldum“ eða „Börnin koma of þreytt heim af æfingu“. Ef langar og margar æfingar barna (eða foreldra) gefa lítinn tíma til heimanáms má þá ekki ræða við þjálfarann um að stytta æfingarnar eða fækka þeim í stað þess að stytta tímann tíma til heimalesturs? Eru kannski tölvuleikir eða of margar æfingar og mót um helgar að stela tíma frá fjölskyldunum en ekki skólinn?

„Ég get ekki hjálpað barninu, ég skil ekki verkefnið“ eða „Ekki eiga allir kost á að fá aðstoð heima fyrir“. Ef einn af ávinningum heimanáms er aukið sjálfstæði nemandans og traust á sjálfan sig er þá ekki allt í lagi þó að foreldrar geti ekki hjálpað? Þeir eiga ekki að leysa verkefnið. Hluti af heimavinnu er að glíma við verkefni og reyna á sjálfan sig. Slíkt kallast þrautsegja og er þess virði að þjálfa í stað þess að gefast upp eða fá svarið frá öðrum.

Kennari á daginn, foreldri á kvöldin

Nú vil ég ekki mín orð séu túlkuð þannig að ég vilji drekkja nemendum í heimanámi. Kennarinn í mér hallast að gagnsemi heimanáms en sem foreldri vil ég líka að börnin mín hafi frítíma. Hingað til hafa þau þurft að glíma við það sem ég tel hæfilegan skammt af heimavinnu. Þau hafa samt alveg fengið sinn skammt af frítíma. Stundum hef ég þurft að takast á við þrjóskuköst þegar þolinmæði við heimanámið var á þrotum hjá þeim, ég leyfði þeim samt ekki að gefast upp. Ég vil nefnilega kenna þeim þrautsegju. Bæði börnin mín eru á kafi í íþróttum og ég held að fyrir vikið hafi þau þurft að læra að skipuleggja sig til að ná að sinna heimanámi líka og hafa svigrúm fyrir frítíma. Tímastjórnun er gott að þjálfa.

Greiði eða bjarnargreiði 

Stundum heyri ég að nemendur verða fyrir „menningarsjokki“ þegar komið er í framhaldsskóla, þar er mikið heimanám svo ekki sé talað um háskóla. Eitt af hlutverki grunnskólans er að undirbúa nemendur fyrir framhaldsskóla. Ef stefna á Íslandi á að vera sú að sleppa heimanámi í grunnskólum þá þarf að fá framhaldsskólana í lið með sér líka, annars er verið að gera börnunum bjarnargreiða.

Samantekt

Margar rannsóknir sýna jákvæð tengsl milli heimanáms og námsárangurs þó það sé vissulega háð aldri og fleiri þáttum. Það hlýtur að gilda í stærðfræði rétt eins og fótbolta eða píanónámi að því meiri tíma sem þú eyðir í að æfa þig því betri verður þú. Meðan rannsóknir styðja þetta þá þurfa þeir sem vilja minnka eða útrýma heimanámi að gera sér grein fyrir því að með því að draga úr æfingunni þá getum við verið að draga úr árangrinum sem barnið getur náð. Við ákveðnar aðstæður t.d. ef nemandi á við mikla náms- eða einbeitingarörðugleika að stríða veit ég ekki betur en að með samstarfi heimilis og skóla er hægt að koma til móts við slíka nemendur. Að nefna dæmi um erfitt ástand hjá einhverjum sem rök fyrir því að draga almennt úr heimanámi er eins og að segja að það eigi að hætta að kenna algebru af því að Jóa gengur illa með hana. Ég viðurkenni fúslega að heimanám getur verið tvíeggja sverð og passa þarf að magnið sé ekki of mikið en ef við gerum kröfur um árangur þá þarf stundum „aukaæfinguna“.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×