Skoðun

Er heilsa íbúa Reykjanesbæjar söluvara á markaði?

Hannes Friðriksson skrifar
Uppbygging atvinnutækifæra í Helguvík er nú ofarlega í umræðunni. Mest er þar rætt um uppbyggingu tveggja kísilvera, enda ljóst að fyrirhugaðar álversframkvæmdir hafa siglt í strand, tímabundið í það minnsta. Inn í þessa umræðu blandast svo erfið skuldastaða Reykjanesbæjar og á það er bent að Reykjanesbær eigi erfitt með að hafna nokkrum þeim atvinnukostum sem völ er á, slík sé staðan.

Fyrir utanaðkomandi virðist svo vera sem meginmarkmiðið sé að skapa höfninni tekjur til hraðrar niðurgreiðslu gríðarlegra skulda sinna, um leið og byggð eru upp framtíðaratvinnutækifæri. Svo virðist sem menn hafi orðið sammála um að tala tækifærin upp í stað þess að ræða eðli starfseminnar og hugsanlegra afleiðinga hennar fyrir íbúa svæðisins og þróun bæjarins. Fyrir íbúa í Reykjanesbæ situr eftir spurningin: Er það skynsamlegt til framtíðar litið að byggja tvö kísilver svo nærri byggðinni, og hver verða áhrifin af slíku?

Sömu spurningar hafa forsvarsmenn að minnsta kosti annars kísil­versins spurt sig og sett fram sem athugasemd við Skipulagsstofnun. Hvort umhverfisáhrif tveggja kísilvera svo nálægt byggð séu áhyggjuefni fyrir íbúa svæðisins? Það er einnig umhugsunarefni fyrir okkur sem búum hér hvort þessi spurning sé sett fram af umhyggju fyrir okkur eða af samkeppnislegum ástæðum. Getur það verið að framtíðarheilsufar íbúa Reykjanesbæjar sé orðið að samkeppnislegu þrætuepli forsvarsmanna kísilverkmiðjanna?

Skipulagsstofnun hefur tekið þessar athugasemdir alvarlega og beðið óháðan aðila um úttekt. Fyrstu fréttir af þeirri úttekt má hvort heldur túlka sem jákvæðar eða neikvæðar fyrir íbúa Reykjanesbæjar, svona svipað og gert hefur verið með ársreikninga sveitarfélagsins mörg undanfarin ár.

Jákvæða túlkunin gæti verið sú að allt sé í lagi, menn verði bara að taka upp vöktun á umhverfisáhrifunum með tilliti til heilsu bæjarbúa, um leið og sett verði ströng starfsskilyrði til að geta brugðist við, beri eitthvað út af. Neikvæða túlkunin gæti svo verið sú að sé vöktunar á umhverfisþáttum gagnvart heilsufari íbúa yfirleitt þörf er þá ekki jafnframt ljóst að tvær kísilverksmiðjur svo nærri byggð sé einni of mikið?

Öll gögn séu ljós

Hvora túlkunina sem menn velja er ljóst að um stórmál er að ræða fyrir íbúa Reykjanesbæjar, ekki bara frá umhverfislega og efnahagslega þættinum heldur líka hvað varðar alla framtíðarásýnd og ímynd bæjarins. Reykjanesbær er fyrsti viðkomustaður erlendra ferðamanna inn í land sem kennir sig við hreint loft og hreina náttúru. Í grennd við fyrirhugaðar framkvæmdir eru helstu frístundavæði bæjarbúa, hesthús og hagar, golfvöllur og ystu hverfi bæjarins. Er það örugglega vilji okkar íbúa að yfir þessu gnæfi tvær stóreflis málmblendiverksmiðjur?

Á borði bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ er erfitt mál sem þarfnast úrlausnar. Þetta er ekki spurning um að vera með eða á móti uppbyggingu atvinnutækifæra, heldur spurning hversu skynsamlegt það er út frá framtíðarmöguleikum bæjarins að velja svo óhefta leið stóriðjustefnunnar. Hver sem niðurstaðan verður þurfa öll gögn málsins að vera ljós og þau kynnt bæjarbúum á forsvaranlegan hátt og sátt sé um hvað úr verður. Mikil ástæða er til að fagna nýjum atvinnutækifærum, en gætum þess alltaf að lífi, lífsskilyrðum og heilsu komandi kynslóða verði ekki stefnt í voða.




Skoðun

Sjá meira


×