Enski boltinn

Ensku liðin ráðið og rekið 232 stjóra í valdatíð Wengers

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger ungur og gamall.
Arsene Wenger ungur og gamall. vísir/getty
Arsene Wenger fagnar 20 ára starfsafmæli með Arsenal í dag en hann var kynntur til leiks sem stjóri Lundúnarliðsins 22. september 1996.

Wenger vann ensku úrvalsdeildina á öðru tímabili sem var hans fyrsta heila leiktíð með liðið en í heildina hefur hann unnið ensku deildina þrisvar sinnum og bikarinn sex sinnum.

Frakinn hefur fengið mikla gagnrýni undanfarin ár en hann hefur ekki skilað úrvalsdeildartitlinum í hús síðan 2004 og aðeins einu sinni verið nálægt því að vinna Meistaradeildina á 20 árum.

Aftur á móti er stöðugleikinn gríðarlegur hjá Arsenal en það er á hverju ári í Meistaradeildinni og vann bikarinn bæði 2014 og 2015. Hann er nú sá stjóri sem hefur verið lang lengst við störf í ensku úrvalsdeildinni og næst lengst í sögunni á eftir Sir Alex Ferguson.

Daily Mail birtir í dag mjög áhugaverða úttekt þar sem kemur fram að á meðan Wenger hefur verið við stjórnvölinn hjá Arsenal eru 44 önnur lið sem hafa spilað í úrvalsdeildinni á hans tíma búin að ráða og reka 232 stjóra.

Wenger hefur mætt flestum stjórum hjá Newcastle og Sunderland eða þrettán talsins. Fyrst þegar hann mætti Newcastle var Kevin Keegan stjóri liðsins en nú síðast Rafael Benítez.

Stjórar Chelsea, Southampton og Tottenham koma svo næstir en þessi lið hafa notast við tólf knattspyrnustjóra á 20 árum Wengers í enska boltanum.

Úttekina má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×