Enski boltinn

Enska úrvalsdeildin á Amazon eftir tvö ár?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Svo gæti farið að netverslunarrisinn Amazon myndi bjóða í sjónvarpsréttinn að ensku úrvalsdeildinni. Daily Mail greinir frá.

Orðrómurinn um að Amazon ætli sér að berjast um sjónvarpsréttinn að ensku úrvalsdeildinni fyrir árin 2019-22 er orðinn ansi hávær og margt bendir til þess að hann verði að veruleika.

Næsta útboð á sjónvarpsréttinum fer væntanlega fram seinna á þessu ári. Amazon þykir líklegast af stóru netmiðlunum til að hella sér út í þennan slag; líklegri en Facebook, Twitter, Google og Netflix.

Amazon hafði nýlega betur í baráttu við Sky Sport um sjónvarpsréttinn á ATP-mótaröðinni í tennis og hefur fjárhagslegt bolmagn til að keppa um sjónvarpsréttinn að ensku úrvalsdeildinni.

Síðasti sjónvarpsréttarsamningur fyrir ensku úrvalsdeildina var stjarnfræðilega hár en til marks um það borgar Sky 11 milljónir punda fyrir hvern leik í deildinni. Þessar tölur eiga væntanlega eftir að hækka með innkomu Amazon í þennan slag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×