Enski boltinn

Enner Valencia orðinn leikmaður West Ham

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Enner Valencia í búningi West Ham.
Enner Valencia í búningi West Ham. vísir/getty
Enska úrvalsdeildarliðið West Ham greinir frá því á heimasíðu sinni í dag að Ekvadorinn Enner Valencia hafi hlotið atvinnuleyfi og sé því formlega genginn í raðir félagsins.

Valencia kemur til Hamranna frá mexíkóska liðinu Pachuca, en Lundúnaliðið borgar tólf milljónir punda fyrir leikmanninn sem sló svo skemmtilega í gegn á HM.

Þessi 25 ára gamli framherji skoraði öll þrjú mörk Ekvador á HM í Brasilíu, en í heildina hefur hann skorað sex mörk í síðustu sex landsleikjum.

Hann skoraði 18 mörk í 23 leikjum fyrir Pachuca, en þaðan kom hann frá Emelec í heimalandinu í janúar á þessu ári. Hann fær nú að reyna sig í sterkustu deild heims, en Valencia þykir ekki ósvipaður leikmaður og Andy Carroll.

„Ég er mjög þakklátur fyrir þær móttökur sem ég hef fengið og ég er spenntur fyrir því að vera hér. Ég er búinn að sjá og lesa mikið um þetta félag til að reyna að læra allt um það. Ég veit að stuðningsmennirnir styðja liðið rækilega og eru ánægðir með að ég sé kominn til West Ham,“ segir Enner Valencia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×