Skoðun

Enn um Pisa

Inga Sigrún Atladóttir skrifar
Það er margt gott við íslenska skólakerfið, það er meira að segja margt mjög gott við íslenska skólakerfið. En staðreyndin er hins vegar sú að við erum að koma illa út úr samanburðarrannsóknum miðað við önnur lönd þegar ákveðnir hlutir eru mældir. Það er staðreynd sem alger óþarfi er að leiða fram hjá sér.

Það má margt betur gera í íslensku skólakerfi. Það þarf að efla metnað fyrir námi og skólakerfið og samfélagið allt þarf að endurspegla þau skilaboð að það sé gott að standa sig í námi. Skólinn þarf að hafa ríka eftirfylgni með námsárangri sem byggir á vel skilgreindum markmiðum. Skólinn þarf að beita mörgum og margvíslegum inngripum á þann hátt að í raun og veru verði „ekkert barn skilið eftir“.

Kennarar þurfa að fá tíma til að undirbúa gæðakennslu. Beita fjölbreyttum og skilvirkum aðferðum sem reyna á nemendur og fá þá til að ígrunda námsefnið og gera það virkilega að sínu. Góðar kennsluáætlanir eru grundvöllur góðrar kennslu, það þarf að skilgreina markmið, velta fyrir sér bestu leiðunum og íhuga hvernig hægt er að bregðast við fjölbreytileika þeirra nemenda sem í skólastofunni finnast. Það þarf að huga að því að tími sé fyrir samskipti, skoðanaskipti, dýpra nám og að nemendur hafi tíma til að tileinka sér grundvallarþekkingaratriði. En til þess að hægt sé að skipuleggja kennslu vel og hafa öfluga eftirfylgni þurfa kennarar að hafa tíma til að sinna þeim þáttum og skólastjórnendur þurfa að hafa getu til að eiga samtal um góða kennsluhætti og getu til að fylgja því eftir að skipulagningu kennslu sé vel sinnt.

Íslenska skólakerfið er á margan hátt virkilega gott og á ákveðnum þáttum á pari við það besta sem gerist í heiminum. PISA-þekking er þó ekki einn af okkar styrkleikum og það verðum við öll að leggja okkur fram um að bæta. Það verður ekki gert með fleiri stofnunum sem hringja og senda tölvupósta. Það verður ekki gert með ráðherrum og átaksverkefnum þeirra. Þessu verður ekki snúið við nema með alvöru samtali við foreldra, nemendur og starfsmenn skóla. Þar liggur lykillinn og aðeins með þeim lykli getum við opnað dyrnar.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×