Innlent

Enn óvissa um friðarkertin frá Heimaey

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Mynd / Eyjar.net
„Það er ekkert sem liggur á borði,“ segir Sveinn Pálmason, forstöðumaður Kertaverksmiðjunnar Heimaey. Vísir fjallaði í gærkvöldi um ákvörðun Hjálparstarfs kirkjunnar um að hætta samstarfi við verksmiðjuna um framleiðslu á friðarkertum en í dag tilkynnti kirkjan um að ekki væri útilokað að kerti yrðu keypt frá Eyjum.

„Við ætlum að hittast í næstu viku,“ segir Sveinn sem er þó ósáttur við að samtal á milli aðila sé fyrst að hefjast núna. Hjálparstarf kirkjunnar hefur þegar fest kaup á innfluttum kertum fyrir komandi jól. Þau kerti koma frá Póllandi. „Ég hefði viljað fá þetta samtal áður en farið var í innflutning,“ segir hann.

Í yfirlýsingu Hjálparstarfs kirkjunnar frá því í dag kemur fram að ákvörðunin um innflutning hafi verið tekin vegna þess hve verðsamkeppni á markaði sé hörð. Þá segir einnig að sala á friðarljósum hafi dregist saman.

Kertaverksmiðjan Heimaey er verndaður vinnustaður og hefur átt í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar í á þriðja áratug. Kirkjan hefur séð verksmiðjunni fyrir ílátum fyrir kertin en kertaverksmiðjan séð um vaxið sjálft. Starfsemin í kringum friðarkertin hefur séð þremur fyrir vinnu í allt að fjóra mánuði.


Tengdar fréttir

Kirkjunnar menn loka ekki á Eyjakertin

Framkvæmdastjóri Hjálparstarfs Kirkjunnar segist hafa rætt við framkvæmdastjóra kertaverksmiðjunnar í dag vegna framleiðslu á friðarljósum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×