Fótbolti

Enn meiri öryggisgæsla í kringum strákana eftir að þeir komust áfram

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Öryggisgæslan var miklu meiri á æfingasvæðinu í gær og verður það áfram.
Öryggisgæslan var miklu meiri á æfingasvæðinu í gær og verður það áfram. vísir/vilhelm
Öryggisgæslan á Evrópumótinu í fótbolta í Frakklandi er gríðarleg og þá sérstaklega í kringum liðin en vopnaðir verðir fylgja strákunum okkar hvert fótmál og standa vörð fyrir utan hótel íslenska liðsins í Annecy.

Vísir ræddi öryggismálin við Aron Einar Gunnarsson og Ragnar Sigurðsson á hótelhittingi liðsins skömmu fyrir fyrsta leik. Aron Einar sagði frá sérsveitarmanni sem mætti með riffil með þeim í golf og Ragnar Sigurðsson sagði frá Jack Bauer-týpunni sem ver þá öllum stundum.

Eitt það fyrsta sem blaðamenn tóku eftir þegar þeir mættu aftur á æfingasvæði íslenska liðsins í Annecy var aukin öryggisgæsla. Fyrir utan hina hefðbundnu gæslu voru mættir fleiri vopnaðir lögreglumenn og andrúmsloftið var þvingaðra en áður í kringum gæsluna.

„Svona er þetta þegar maður kemst í 16 liða úrslitin,“ sagði Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi Íslands, við Vísi. „Allt verður meira og stærra því lengra sem þú kemst í mótinu.“

Fjölmiðlamenn voru með allan farangurinn sinn eftir ferðina til Parísar en þurftu að skilja hann eftir í skugga undir tré við innganginn á æfingasvæðið. Það var ekki tekið í mál að fara með hann að klúbbhúsinu eða að æfingavellinum.

Bílalestin sem fylgir íslenska liðinu er einnig vel varin en umræddur Jack Bauer sem Ragnar Sigurðsson talar um lítur undir alla bílana áður en haldið er af stað í leit að sprengjum. Viðbúnaðurinn er mikill eins og við mátti búast en það má segja að strákarnir okkar séu í öruggum höndum.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×