Enski boltinn

Enn lengist bið Newcastle eftir sigri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Stoke vann Newcastle, 1-0, í lokaleik 6. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Peter Crouch skoraði eina mark leiksins strax á fimmtándu mínútu.

Newcastle hefur enn ekki unnið sigur á tímabilinu til þessa og er í næstneðsta sæti með þrjú stig. Það hefur verið heitt undir knattspyrnustjóranum Alan Pardew og ljóst að mikil óvissa ríkir um framtíð hans hjá félaginu.

Crouch skoraði markið með skalla eftir fyrirgjöf Victor Moses sem var óheppinn að fá ekki vítaspyrnu í leiknum eftir að Yoan Gouffran braut á honum.

Marko Arnautovic átti skot í stöng í upphafi síðari hálfleiks en undir lok leiks var Jack Colback hársbreidd að tryggja Newcastle stig er hann þrumaði í slána af stuttu færi.

Stoke hoppaði upp í elleftra sæti deildarinnar með sigrinum en liðið er með átta stig. Þetta var fyrsti sigur liðsins á heimavelli á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×