Innlent

Enn kvartað yfir sólbaðsstofu inni á Beauty tips

Birgir Olgeirsson skrifar
Viðskiptavinir sólbaðsstofunnar Sportsólar hafa kvartað undan því að vera rukkaðir þrátt fyrir að áskrift þeirra við fyrirtækið sé lokið en eigandinn fullyrðir að þessi mistök hafi verið leiðrétt.
Viðskiptavinir sólbaðsstofunnar Sportsólar hafa kvartað undan því að vera rukkaðir þrátt fyrir að áskrift þeirra við fyrirtækið sé lokið en eigandinn fullyrðir að þessi mistök hafi verið leiðrétt. Vísir/Getty
Mikil umræða hefur farið fram um sólbaðsstofuna Sportsól inni á síðu Facebook-hópsins Beauty Tips. Málið snýst um tólf mánaða samning sem viðskiptavinum er boðið upp þar sem þeir greiða 3.490 krónur á mánuði og geta þá farið eins oft í ljós og þeim sýnist.

Einhverjir meðlimir Beauty tips hafa kvartað yfir því að þegar samningstímanum lýkur eftir 12 mánuði þá eru þeir samt sem áður rukkaðir áfram fyrir þessa þjónustu þó þeir hafi ekki óskað eftir því og ítrekað lýst því yfir við fyrirtækið að þeir hafi engan hug á að halda áskriftinni áfram.

Hafa nokkrir lýst því hvernig þessi skuld þeirra sem hefur safnast upp gagnvart Sportsól, sem nemur tugum þúsund í einhverjum tilvikum,  sé komin í innheimtu. Segja þeir sem tjá sig um málið að erfitt hafi reynst að ná á forsvarsmenn fyrirtækisins til að koma þessu í lag og því sé ítrekað lýst yfir að eigendaskipti eigi sér stað hjá fyrirtækin en verið sé að reyna að koma þessu í lag.

Fjallað um sama mál í janúar

Fjallað var síðast um Sportsól á vef Smartlands í janúar síðastliðnum þar sem greint var frá sama vanda.

Viðskiptavinum Sportsólar sem höfðu verið í áskrift hjá fyrirtækinu gekk erfiðlega að segja upp áskriftinni til að fá greiðslurnar stöðvaðar.  Smartlandið ræddi við eiganda Sportsólar, Björgin Þór Þorsteinsson, við það tilefni sem sagði þessi mistök hafa verið leiðrétt og fullyrti að allir sem hefðu lent í þessu „veseni“ hefur fengið endurgreitt. Tók hann fram í samtali við Smartland að hann væri búinn að selja fyrirtækið til nýrra eigenda.

Vísir náði tali af Björgvini vegna málsins sem fullyrðir að búið sé að lagfæra þessi mistök sem nefnd eru á vef Beauty tips í tengslum við áskriftina. Hann segir nýja félagið sem tekið hefur við rekstrinum heita Sportljós ehf.

Ekki leitað til Neytendastofu

Meðlimir Beauty tips töluðu um að leita til Neytendastofu vegna málsins en Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri neytendaréttarsviðs, segir að eftir því sem næst verður komist hefur Neytendastofu ekki borist fyrirspurnir varðandi bindingu í samningi hjá sólbaðsstofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×