Innlent

Enn haldið sofandi í öndunarvél eftir hnífsstunguárás

Birgir Olgeirsson skrifar
Árásin átti sér stað fyrir utan stúdentagarðanna við Sæmundargötu.
Árásin átti sér stað fyrir utan stúdentagarðanna við Sæmundargötu. Vísir
Maðurinn sem var stunginn í bakið fyrir utan stúdentagarða við Sæmundargötu í Reykjavík aðfaranótt sunnudags liggur enn þungt haldinn í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans.

Maðurinn sem grunaður er um árásina var í gærkvöldi úrskurðaður í gæsluvarðhald til miðvikudags. Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að afstaða mannsins til sakarefnisins sé ekki gefin upp að svo stöddu. Mennirnir eru báðir á 27. aldursári.

Rannsókn málsins er sögð á viðkvæmu stigi en nokkrir hafa verið yfirheyrðir vegna málsins. Árni Þór vildi ekki veita upplýsingar um hversu margir hefðu verið yfirheyrðir vegna málsins en sagði þá færri en tíu. Standa yfirheyrslur lögreglu enn yfir.

Spurður hvort fleiri hafi verið á vettvangi þegar maðurinn var stunginn segir Árni lögreglu vera að rannsaka það. Spurður hvort þetta hafi gerst í eða eftir gleðskap segist Árni ekki geta veitt upplýsingar um það.

Sömuleiðis segist hann ekki geta veitt upplýst hvort einhverjir hefðu fengið áfallahjálp vegna málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×