Körfubolti

Enn ein þrenna Westbrook sá um Lakers

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Westbrook hefur verið eins manns her á þessu tímabili.
Westbrook hefur verið eins manns her á þessu tímabili. Vísir/Getty
Stórstjarnan Russell Westbrook sem leikur með Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni átti enn einn stórleikinn og lauk leiknum með þrefaldri tvennu í 110-93 sigri á Los Angeles Lakers í nótt.

Var þetta 28. skiptið í vetur sem Westbrook er með þrefalda tvennu en hann var nálægt því að ná henni í fyrri hálfleik með 15 stig, 8 stoðsendingar og 8 fráköst.

Lauk Westbrook leiknum með 17 stig, 18 fráköst og 17 stoðsendingar en hann er 13 leikjum frá meti Oscar Robertson yfir flestar þrefaldar tvennur á tímabili þegar Oklahoma á 24 leiki eftir.

Í Toronto unnu heimamenn tíu stiga sigur á Boston Celtics 107-97 og söxuðu með því á Boston og Washington Wizards í baráttu um annað sæti austurdeildarinnar.

Celtis-menn leiddu um tíma með sautján stigum en Toronto átti góðan lokasprett sem innsiglaði sigurinn.

DeMar DeRozan steig upp í fjarveru félaga síns Kyle Lowry úr bakvarðasveit heimamanna og var stigahæstur í liði Toronto með 43 stig.

Serge Ibaka var einnig flottur  í fyrsta leik sínum í treyju Toronto-manna með 15 stig og 7 fráköst eftir vistaskipti frá Orlando Magic á dögunum.

Þá náðu leikmenn Los Angeles Clippers ekki að sækja sigur gegn San Antonio Spurs í Texas þrátt fyrir að leikstjórnandinn Chris Paul kæmi aftur inn í lið Clippers en leiknum lauk með 105-97 sigri heimamanna í San Antonio.

Eftir að hafa ekkert leikið undanfarnar fimm vikur lék Paul 32 mínútur í gær og var með 17 stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar. Austin Rivers kom af krafti inn af bekknum þegar Paul hvíldi sig og var með 23 stig í gær.

Leikir gærkvöldsins:

Philadelphia 76ers 120-112 Washington Wizards

Indiana Pacers 102-92 Memphis Grizzlies

Toronto Raptors 107-97 Boston Celtics

Chicago Bulls 128-121 Phoenix Suns( e. framlengingu)

Milwaukee Bucks 95-109 Utah Jazz

Oklahoma City Thunder 110-93 Los Angeles Lakers

Minnesota Timberwolves 97-84 Dallas Mavericks

Atlanta Hawks 90-108 Miami Heat

Denver Nuggets 129-109 Brooklyn Nets

San Antonio Spurs 105-97 Los Angeles Clippers    

Bestu tilþrif næturnar: Þrefalda tvenna Westbrook: Stórleikur DeRozan:
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×