Innlent

Engum vísað frá í nýja gistiskýlinu

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Við nýja gistiskýlið. Tryggvi Magnússon umsjónarmaður segir menn geta gengið að því vísu að fá húsaskjól.
Við nýja gistiskýlið. Tryggvi Magnússon umsjónarmaður segir menn geta gengið að því vísu að fá húsaskjól. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
„Ég sé fyrir mér að það fari miklu betur um alla gesti okkar að öllu leyti. Þetta er að færast til nútímans hvað húsnæði varðar. Gamla húsnæðið í Farsóttarhúsinu í Þingholtsstræti fullnægði ekki kröfum um öryggi.“ Þetta segir Tryggvi Magnússon, umsjónarmaður nýja gistiskýlisins að Lindargötu 48 sem opnað verður á mánudaginn. Tryggvi fagnar bættri aðstöðu og því að nú verði engum vísað frá.

Í Þingholtsstræti, þar sem var rými fyrir 20 manns, kom það fyrir að ekki var hægt að veita öllum gistingu yfir nóttina. „Við fengum til afnota lítið hús á Vatnsstíg fyrir fimm menn í desember í fyrra. Því verður nú lokað,“ segir Tryggvi.

Hann getur þess að í nýja húsnæðinu að Lindargötu sé gert ráð fyrir 20 næturgestum. „Við getum hýst 25 og það er leyfi til að hýsa fleiri ef þörf krefur. Mönnum verður ekki vísað frá heldur verður málið bara leyst.“

Þegar flutt verður úr gistiskýlinu í Þingholtsstræti á mánudaginn yfirgefa gestirnir húsnæðið klukkan 10 um morguninn. Þeir geta svo komið í nýja húsnæðið að Lindargötu klukkan 17. „Það eru til staðir sem menn geta verið á að degi til, eins og í Dagsetri Hjálpræðishersins á Eyjaslóð og Kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni,“ greinir Tryggvi frá en hann hefur tekið á móti næturgestum í sjö ár. Hann viðurkennir að starfið taki stundum á. „Jú, auðvitað. Það verður að segjast eins og er. Það er erfitt að sjá meðbræður sína líða þjáningar.“

Tryggvi á ekki von á því að menn safnist saman fyrir utan gistiskýlið eins og stundum gerðist í Þingholtsstræti. „Þegar allir komust ekki að í fyrra skapaðist óöryggi og þá komu menn snemma og biðu fyrir utan. Nú geta þeir gengið að því vísu að fá húsaskjól og það miklu betra. Húsið í Þingholtsstræti var byggt árið 1884 og var barn síns tíma. Það var timburhús en nú flytjum við í steinhús.“

Gerðar hafa verið miklar endurbætur að Lindargötu. „Það var nánast allt endurgert innanhúss,“ tekur Tryggvi fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×