Fótbolti

Englandsmeistararnir niðurlægðir í Portúgal | Sjáðu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leicester City varð sér og enskum fótbolta til skammar í kvöld þegar liðið steinlá 5-0 á móti Porto.

Leicester var búið að tryggja sig áfram í sextán liða úrslitin og Claudio Ranieri hvíldi lykilmenn í leiknum.

Leicester vinnur riðilinn og endar með tveimur stigum meira en Porto þrátt fyrir þetta stórtap.

André Silva skoraði fyrsta markið með skalla eftir horn strax á sjöttu mínútu og það kom fljótt í ljós að róðurinn yrðu erfiður í kvöld fyrir leikmenn Leicester.

Jesús Corona bætti við öðru marki á 26. mínútu og Yacine Brahimi kom Porto í 3-0 rétt fyrir hálfleik.

Portúgalarnir voru ekki hættir og bættu við tveimur mörkum í seinni hálfleiknum til að kóróna niðurlæginguna. Porto þurfti að vinna til þess að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitum og það gerðu leikmenn liðsins með stæl.

Leicester fékk 13 stig af 15 mögulegum í fyrstu fimm leikjunum þar sem liðið fékk aðeins á sig eitt mark. Menn voru að tala Meistaradeildarævintýri hjá liðinu því ekkert gengur í deildinni heima.

Frammistaða Leicester City í kvöld var hreinasta hörmung og það er ótrúlegt að þar fari Englandsmeistararnir og lið sem mun vera í hópi þeirra átta liða sem unnu sinn riðil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×