Erlent

Engir vetrarólympíuleikar í Ósló árið 2022

Atli Ísleifsson skrifar
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Vísir/AP
Stian Berger Røsland, borgarstjóri Óslóar, hefur lýst yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun þingflokks stjórnarflokksins Høyre sem ákvað í gær að samþykkja ekki ríkisábyrgð vegna Ólympíuleika í Ósló árið 2022.

Borgin sóttist á síðasta ári eftir því að halda leikana, en umsóknin hefur nú verið dregin til baka.

Røsland hefur þó heitið því að reisa nýja íþróttaleikvanga og bæta aðstæður til íþróttaiðkunar í borginni, þrátt fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Verður það meðal annars gert í og í kringum borgina, í Kjelsrud, Økern, Ulven og Stubberud.

Í frétt NRK kemur fram að Røsland segi að ef Ólympíuleikarnir hefðu farið fram í Ósló hefðu framkvæmdirnar klárast fyrir 2022, en nú sé ljóst að þær muni eitthvað dragast.

Erna Solberg forsætisráðherra sagði þingflokk Høyre hafa rætt málið vel og vandlega, en að lokum hafi verið ákveðið að samþykkja ekki ríkisábyrgð. Kostnaðurinn hafi verið of mikill og áhugi almennings á verkefninu ekki nægur.

Óslóarborg hafði þegar varið um tveimur milljörðum íslenskra króna í umsóknina og um 1,5 milljarði til viðbótar vegna framkvæmda og áætlanagerðar vegna ýmissa framkvæmda í borginni í tengslum við mögulega Ólympíuleika.

Alþjóðaólympíunefndin mun ákveða í júlí á næsta ári hvar vetrarólympíuleikarnir verða haldnir árið 2022. Kínverska höfuðborgin Beijing og kasakska borgin Almaty koma nú einar til greina eftir ákvörðun norskra yfirvalda. Áður höfðu Stokkhólmur, pólska borgin Krakow og úkraíska borgin Lviv dregið umsóknir sínar til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×