Viðskipti innlent

Engir mátunarklefar, öryggisvörður skoðar kvittun og tveir gestir velkomnir hjá Costco

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Reikna má með því að ansi margir verði mættir fyrir utan Costco morguninn sem dyrnar verða opnar. Stefnt er að því að það verði í lok maí.
Reikna má með því að ansi margir verði mættir fyrir utan Costco morguninn sem dyrnar verða opnar. Stefnt er að því að það verði í lok maí. Vísir/Getty
Engir mátunarklefar verða í Costco og sömuleiðis engir hraðkassar. Þetta er meðal þess sem fram kemur í bæklingi sem bandaríski verslunarrisinn dreifði í hús landsmanna í vikunni. Áætlað er að verslun Costco verið opnuð í Kauptúni í Garðabæ eftir rúma tvo mánuði en gerast þarf meðlimur til þess að geta keypt vörur í versluninni.

Neðst í fréttinni má sjá svör við algengum spurningum viðskiptavina verslunarrisans.

Óhætt er að segja að áhugi Íslendinga á komu Costco sé mikill eins og svo algengt er þegar þekkt erlend vörumerki ákveða að sýna íslenskum neytendum áhuga. Verslunarstjóri Costco á Íslandi hefur sagst aldrei hafa fundið fyrir viðlíka áhuga við opnun verslunar en vöruhús Costco eru 725 víðsvegar um heiminn.

Landsmenn munu geta keypt vörubretti 

Frá opnun Lindex í Smáralind.vísir
Lokuðu eftir þrjá daga vegna vöruskorts

Uppi varð fótur og fit þegar Lindex opnaði í Smáralind árið 2011. Fyrir opnun höfðu 17 þúsund manns gerst vinir íslensku verslunarinnar á Facebook og ætlaði allt um koll að keyra þegar dyrnar voru opnaðar.

Þurfti að loka versluninni vegna vöruskorts þremur dögum eftir opnun en áætlað var að tíu þúsund manns hefðu komið í búðina fyrstu þrjá dagana. Var salan fimm sinnum meiri en reiknað hafði verið með.

Síðan hafa Íslendingar fjölmennt nokkrum sinnum við komu alþjóðlegs risa til landsins.

Mörg þúsund mættir fyrir opnun Bauhaus vorið 2012.Vísir
Bílastæðavandi hjá Bauhaus

Umferðaröngþveiti myndaðist fyrir utan Bauhaus áður en verslunin var opnuð klukkan átta laugardaginn 5. maí árið 2012.

Öll sex hundruð bílastæði verslunarinnar voru upptekin löngu fyrir opnun og búið var að leggja á nær hvern auðan blett við verslunina.

Halldór Óskar Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar, áætlaði að milli fimm og sex þúsund manns hefðu verið fyrir utan verslunina þegar hún var opnuð til að taka þátt í happdrætti og kaupa gasgrill og fleira á opnunartilboði.

Fyrstu vikuna versluðu Íslendingar í Bauhaus fyrir tæpan milljarð króna. 

Hleypt inn í hollum í Toys R Us við SmáratorgVísir
Kleinuhringjaæði

Íslendingum leiddist heldur ekki þegar kleinuhringjarisinn Dunkin’ Donuts opnaði verslun sína á Laugaveginum sumarið 2015. Röð var út úr dyrum fyrstu dagana og síðan hafa fleiri útibú verið opnuð.

Vafalítið muna margir eftir því þegar Toys R Us var opnuð á Smáratorgi í október 2007 en hleypa þurfti inn í hollum til að forðast örtröðina. Opnunarhelgina voru seld leikföng fyrir 70 milljónir króna en síðan hafa verið opnaðar tvær verslanir til viðbótar, önnur á Korputorgi en hin á Glerártorgi á Akureyri.

Þá hafa bandarískir veitingastaðir vakið mikla lukku við komu sína til landsins, eins og McDonalds í september 1993 og Kentucky Fried Chicken í október árið 1980.

Fjallað var ítarlega um það „Þegar æði grípur landann“ í Fréttablaðinu í ágúst 2015. Fróðlegt verður að sjá hvernig landsmenn bregðast við þegar opnað verður í lok maí og sömuleiðis þegar fyrsta verslun H&M verður opnuð síðla sumars.

Verslun Costco í Garðabæ á að opna í lok maí.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Hvorki mátunarklefar né hraðkassar

Í bæklingnum sem Costco dreifði er algengum spurningum varðandi aðild svarað.

Hvar get ég notað Costco aðildina?

Aðild þín gildir í 725 Costco vöruhúsum um allan heim.

Af hverju þarf ég að sýna aðildarkortið mitt við inngang vöruhússins?

Meðlimir okkar borga gjald til að versla í Costco. Það er mynd af þér á kortinu því að þú einn mátt nota aðildarkortið og það gildir ekki fyrir aðra.

Hver er opnunartími Costco?

Venjulegur opnunartími er frá 10-21 mánudaga til föstudag, 09:30-20 á laugardögum og 10-18 á sunnudögum. Upplýsingar um opnunartíma bensínstöðvar og lyfjaverslunar má finna á costco.is.

Af hverju er ég beðinn um að sýna greiðslukvittun þegar ég fer út úr vöruhúsinu?

Varsla við dyrnar er árangursríkasta aðferðin til að viðhalda nákvæmni í birgðastjórn. Við viljum sjá til þess að þið hafið fengið allt sem þið greidduð fyrir og hafið hvorki verið rukkuð um of mikið eða of lítið fyrir hlutina.

Má ég bjóða vini sem er ekki meðlimur?

Þú mátt koma með allt að tvo gesti í hvert skipti sem þú kemur en eingöngu Costco meðlimir mega versla. Vinum þínum er þó alltaf velkomið að sækja um aðild hjá Costco.

Af hverju eru engir hraðkassar?

Ástæðan er tvíþætt: Í fyrsta lagi er það vegna þess að meirihluti meðlima okkar kaupir mikið af vörum í verslunarferðum sínum. Hinn venjulegi meðlimur kaupir að meðaltali 16 hluti í hvert skipti sem hann verslar. Í öðru lagi auka slíkir hraðkassar við rekstrarkostnað, sem er á skjön við markmið okkar um að bjóða alltaf gæðavöru á besta mögulega verðinu.

Af hverju eru engir mátunarklefar?

Við erum að reyna að halda kostnaði í lágmarki. Það þarf starfsólk við mátunarklefa og þeir taka gólfpláss sem hægt væri að nýta betur. Í reglum okkar um skil segir að ef eitthvað stenst ekki kröfur ykkar þá megið þið koma með það og fá endurgreitt.

Hvernig skila ég vörum?

Við ábyrgjumst að þið séuð sátt við þær vörur sem við seljum og endurgreiðlum þær að fullu ef sú er ekki raunin. Sjónvarpstækjum, skjávörpum, stórum raftækjum, myndavélum, myndbandsvélum, farsímum og MP3-spilurum verður þó að skila innan 90 daga frá kaupum ef endurgreiðsla á að eiga sér stað.


Tengdar fréttir

„Samkeppni í verslun á leið til landsins í fyrsta sinn í 1100 ár“

"Nú er viðskiptalíf á Íslandi í uppnámi enda margt að gerast. Stórverslanir eins og H&M og Costco eru komnar vel á veg með að opna útibú hér á landi. Þar fyrir utan hafa margir Íslingar tekið upp þann ósið að kaupa fatnað og annan óþarfa á Netinu,“ segir Þráinn Bertelsson, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður, í hæðnum pistli á heimasíðu sinni sem ber fyrirsögnina Ógnin er yfirvofandi – vágestur á leið til landsins.

Fataverslanir glíma við aukna netverslun og komu H&M hingað

Miklar breytingar eru í vændum í íslenskri fataverslun. Salan hefur dregist saman og H&M verður opnað á árinu. Hagar loka fjórum verslunum á þessu ári og læstu þremur í fyrra. Eigendur Next á Íslandi vilja færri fermetra í Kringlunni.

Costco samdi ekki við Olís um kaup á eldsneyti

Olís mun ekki selja Costco á Íslandi eldsneyti og hefur Skeljungur því að öllum líkindum hreppt samninginn við bandaríska verslunarrisann. Ekki náðist í Valgeir Baldursson, forstjóra Skeljungs, við vinnslu fréttarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×