Innlent

Enginn tilkynnti um að hafa keyrt á manninn

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Frá Miklubraut.
Frá Miklubraut. Vísir/Vilhelm
Lögreglu bárust engar tilkynningar um að ekið hefði verið á manninn sem gekk á móti umferð á Miklubraut um helgina. Vísir hefur rætt við nokkur vitni sem ber öllum saman um að ekið hafi verið á manninn í tvígang hið minnsta. Eitt vitni segir að maðurinn hafi orðið fyrir bíl á nokkurri ferð.

Engir teljandi áverkar voru á manninum þegar hann var handtekinn, að sögn lögreglu. Hann var vistaður í fangageymslu eftir handtöku, sem er til marks um að áverkar hans voru ekki þess eðlis að leita þurfti á sjúkrahús með hann.

Ljóst er að þeir ökumenn sem óku á manninn tilkynntu það ekki til lögreglu. Samkvæmt vitnum óku báðir ökumennirnir í burtu eftir að hafa ekið á hann.

„Annar bíllinn keyrði afar hratt í burtu,“ segir einn sjónarvottur. „Hann gefur alveg vel í þegar hann er búinn að keyra á manninn. Furðulegt að fólk tilkynni ekki að það sé búið að keyra á hann.“

Greint hefur verið frá því að maðurinn hafi verið vopnaður þegar hann gekk á móti umferð seinni part sunnudags. Hann lamdi í bíla og reyndi að komast inn í nokkra. Í einu tilfelli ruddist maðurinn inn í bíl en var rekinn þaðan út.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×