Innlent

Enginn slasaður eftir sex bíla árekstur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sem betur fer slasaðist enginn alvarlega í árekstrinum.
Sem betur fer slasaðist enginn alvarlega í árekstrinum. Vísir/Pjetur
Heilmiklar tafir urðu á umferð norður Hafnarfjarðarveg við Kópavogslæk í morgun vegna sex bíla áreksturs sem varð á níunda tímanum. Engin alvarleg slys urðu á fólki en nokkrir bílanna voru óökuhæfir eftir áreksturinn. 

Samkvæmt upplýsingum frá umferðardeild lögreglu urðu tafir töluverðar enda lokaðist önnur akreinin í norðurátt. Töluverð umferð er fyrir á þessum tíma dags og hægðist því mjög á umferð þann tíma sem tók að koma bílum af vettvangi.

Lögregla beinir til fólks í umferðinni að fjarlægja bíla sína af vettvangi, í þeim tilfellum sem það er unnt, til að skapa ekki hættu á frekari árekstrum í framhaldinu. Þá væri æskilegt að fólk æki bílum sínum á eðlilegum hraða framhjá vettvangi í stað þess að hægja óeðlilega mikið á sér til að svala forvitni sinni.

Umferð á álagstímum er venjulega það hæg að sjaldnast verða slys á fólki við aftanákeyrslur að sögn Guðbrands Sigurðssonar hjá umferðardeild lögreglu. Hins vegar þurfi bara eina aftanákeyrslu á sama tíma til þess að kafstífla umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×