Körfubolti

Enginn Justin í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse.
Justin Shouse. Vísir/Ernir
Justin Shouse, leikstjórnandi Stjörnunnar, verður ekki með liðinu á móti Þór Þorlákshöfn i 17. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta í kvöld.

Þetta staðfestir þjálfari liðsins, Hrafn Kristjánsson, í samtali við karfan.is.

Justin Shouse er algjör lykilmaður í Stjörnuliðinu með 17,1 stig og 4,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. Það mun því muna mikið um hann ekki síst undir lok leikjanna þegar hann er oftast í aðalhlutverki.

Leikur Stjörnunnar og Þórs verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3 í kvöld og hefst útsendingin klukkan 19.05.

Þetta verður annar leikur Stjörnunnar í röð án Justin en hefur aðeins spilað einn hálfleik af síðustu sex hjá liðinu.

Justin Shouse meiddist upphaflega á höfði á æfingu fyrir leik á móti Njarðvík um miðjan janúar. Hann missti af Njarðvíkurleiknum en snéri síðan aftur í leik á móti Keflavík.

Justin varð að hætta leik í hálfeik í Keflavík og hefur síðan ekkert spilað síðan þá en leikurinn í Keflavík fór fram 27. janúar.

Shouse, hefur verið að leita ráða hjá læknum og notaði bikarhléið til að hvíla sig fyrir lokasprett deildarkeppninnar. Nú er ljóst að hann þarf lengri hvíld.

Stjarnan vann Keflavík í framlengingu án Justin og vann svo öruggan sigur á botnliði Snæfells í síðasta leik. Það mun reyna á leikmannahópinn að vera án hans á móti sterku liði Þórs úr Þorlákshöfn í kvöld.


Tengdar fréttir

Justin: Ég var með svima og hausverk

Justin Shouse, leikmaður Stjörnunnar í Domino's-deild karla í körfubolta, segist hafa snúið aftur á völlinn of snemma þegar hann spilaði á móti Keflavík í síðustu umferð. Hann sá ekki til hliðanna en líður nú betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×